Útilokar ekki forsetaframboð

Stefán Jón Hafstein.
Stefán Jón Hafstein.

„Fólk hefur greinilega verið að ræða sín í milli um hvaða frambjóðendur gætu komið til greina í komandi forsetakosningum. Mitt nafn hefur ítrekað komið upp og ég hef sagt að ég aftaki ekkert í þeim efnum að svo stöddu,“ segir Stefán Jón Hafstein, umdæmisstjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Malaví, og bætir við að talsverður þrýstingur virðist vera á mögulega frambjóðendur um að þeir stígi núna fram.

Eftir að hafa fylgst nokkuð náið með umræðunni undanfarna daga segist hann verða var við mikinn áhuga almennings á embættinu. Fólk sé að velta fyrir sér ýmsum möguleikum, nauðsynlegum eiginleikum forseta og framtíðarhlutverki embættisins. Að svo stöddu telur hann ekki tímabært að blanda sér inn í umræðuna.

„Ég vil ekki taka af skarið, af eða á. Ég mun auðvitað hlusta því ég hef fengið mjög mikið af skilaboðum. [...] Það er ekki bara ég sem þarf að hugsa málið, konan mín og mínir nánustu, heldur vil ég sjá hvað fólkið í landinu er að hugsa og hvað það vill sjá í næsta forseta. Mér finnst í raun og veru nauðsynlegt fyrir mig til að átta mig á því hvort ég eigi erindi í þetta að hlusta betur eftir því hvað fólk segir,“ segir Stefán Jón og bætir við að hann viti vel að hann sé umdeild persóna og því ekki víst að nægjanlega breiður stuðningur fáist við framboð. 

Stefán Jón hefur að undanförnu talað fyrir því að í komandi forsetakosningum gefist tækifæri til að ræða og móta stefnu Íslands eftir hrunið. Segir hann slíkt m.a. fela í sér aukið lýðræði til þjóðarinnar, aukið aðhald og auknar skorður við valdastofnanir ásamt nauðsyn þess að bæta siðinn. 

„Mér finnst að forsetinn geti beitt sér með jákvæðum hætti sem einskonar sáttasemjari og að hann geti beitt sér með jákvæðum hætti án þess að setja sjálfan sig í sviðsljósið. Þessar áherslur þurfa að vera á embættinu,“ segir Stefán Jón og bætir við að forsetinn þurfi að starfa meira á heimavelli en núverandi forseti hefur gert.

Á ekki samleið með Samfylkingu

Ýmsir hafa nefnt það við Stefán Jón að hann ætti að taka að sér hlutverk innan forystusveitar Samfylkingarinnar en slíkt er ekki á dagskrá. „Það er bók sem ég lokaði fyrir nokkrum árum og ég stefni ekki að því. Það er ekki til umræðu núna að ég fari að stíga inn á svið Samfylkingarinnar, hún þarf að leysa mörg innri vandamál sem við blasa og ég er ekki viss um að við eigum samleið í einu og öllu núna,“ segir Stefán Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert