Augu heimsins á mynd frá Fáskrúðsfirði

Myndin sem vakið hefur heimsathygli
Myndin sem vakið hefur heimsathygli Mynd/Jónína Guðrún Óskarsdóttir

Ljósmynd sem áhugaljósmyndari á Fáskrúðsfirði tók af tignarlegri norðurljósasýningu, í kjölfar stærsta sólgoss sem orðið hefur í fimm ár, hefur heldur betur farið á flug. Þekktustu miðlar heims auk bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA hafa beðið um afrit af myndinni til birtingar. Sú er ljósmyndina tók heitir Jónína Guðrún Óskarsdóttir.

„Við erum þó nokkuð mörg í þessum norðurljósamyndatökum bæði hér innanlands en einnig erum við í facebooksamskiptum við fólk erlendis í Englandi og Noregi. Ef við náum góðum norðurljósamyndum sendum við myndir inn á heimasíður og ef það er eitthvað sérstakt þá er það birt á forsíðu,“ segir Jónína Guðrún. Vart þarf að nefna að mynd hennar var samstundis birt á forsíðu netsíðunnar.

Fljótlega eftir birtingu myndarinnar settu stærstu miðlar heims sig í samband við hana. Má þar t.a.m. nefna Associated Press, BBC, Bild og Spiegel en að auki stendur til að birta myndina í frönsku stjörnufræðitímariti. Þá fékk hún einnig tölvupóst frá bandarísku geimferðastofnuninni NASA þar sem beðið var um eintak af myndinni og má t.a.m. sjá hana á heimasíðu stofnunarinnar.

Jónína Guðrún hefur verið áhugaljósmyndari um nokkuð langt skeið og segir hún áhugann ágerast með hverju ári sem líður. „Ætli ég hafi ekki fengið fyrstu stafrænu vélina fyrir níu árum fyrir fjölskyldumyndatöku en ætli það sé ekki frá 2006 sem ástandið hefur farið versnandi ár frá ári,“ segir Jónína Guðrún.

Myndin er tekin á Canon Eos 5d mark II og er linsan sem notuð var 14 mm Canon.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert