Fréttaskýring: Mikið reiptog á bak við tjöldin

Frá neðri hluta Þjórsár.
Frá neðri hluta Þjórsár. mbl.is/Rax

Rammaáætlun um virkjanakosti og forgangsröðun þeirra var loks lögð fram í fyrra og í ágúst sameiginleg þingsályktunartillaga þeirra Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra og Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um málið. Talsvert var vikið frá tillögum verkefnisstjórnar um rammaáætlun í hugmyndum ráðherranna.

Kallað var eftir ábendingum og athugasemdum en vitað er að mikill ágreiningur er um málið milli stjórnarflokkanna tveggja. En nú segja traustir heimildarmenn að búið sé að ná samkomulagi sem feli m.a. í sér að hætt verði við virkjanirnar þrjár í neðrihluta Þjórsár.

Ljóst er að verði þessar virkjanir, með alls um 265 megavatta orku, settar í biðstöðu verður málið í salti í mörg ár. Andstaðan við umræddar virkjanir hefur verið hörð í röðum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Sumum finnst að þegar sé búið að virkja nóg á Íslandi, nær sé að minnka orkunotkun hérlendis.

Uppbygging kostar orku

Í Samfylkingunni vilja margir leggja á atvinnuuppbyggingu sem krefst orku en veldur lítilli mengun, nefna má gagnaver og fleira. Þá verður samt að virkja, annaðhvort vatnsafl eða jarðvarma. Stuðningsmenn virkjana benda á að landslag við neðri hluta Þjórsár sé þegar að miklu leyti manngert. Bændur hafa öldum saman ræktað tún við ána og stundað margvíslegar jarðabætur. Ósnortið sé svæðið því ekki og tjónið af völdum virkjana verði lítið miðað við raskið á hálendinu vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Helstu rökin gegn þessum virkjunum eru að þeim fylgi samt sem áður allt of mikið umhverfisrask. Hagsmunaðilar í laxveiðum hafa sagt að laxastofninn í Þjórsá verði fyrir óbætanlegu tjóni, búsvæði muni minnka og afföll verða á seiðum. Laxinn í ánni er aðallega veiddur í net. Ítarlegar rannsóknir hafa verið gerðar á fiskistofnum í ánni allt frá árinu 1973, áhrifum fyrirhugaðra virkjana og mótvægisaðgerða sem ráðast mætti í.

Líta má á gerð laxastigans við Búðafoss árið 1991 sem snemmbúna mótvægisaðgerð.

Forgangsröðin hunsuð

Þegar hefur verið varið geysimiklu fé í að rannsaka ýmsa orkunýtingarkosti sem síðan hafa verið settir í biðflokk eða jafnvel verndarflokk. Nefna má Norðlingaölduveitu og jarðvarmavirkjanir við Bitru og í Grænadal. Verkefnisstjórn um gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma skilaði af sér skýrslu í fyrra en unnið hefur verið að þessari áætlun frá 1999. Starfið kostaði um 500 milljónir króna.

Lögð var áhersla á að með slíkri áætlun væri stefnt að faglegum vinnubrögðum. Safnað yrði öllum nothæfum gögnum til að meta virkjunarkosti út frá hagkvæmni þeirra og mismunandi miklum áhrifum á umhverfið, kostunum síðan raðað í flokka.

Vandi stjórnarflokkanna er að um leið og þeir breyta forgangsröðinni verður erfitt fyrir þá að verjast ásökunum um að þeir láti pólitík og jafnvel geðþótta ráða för, ekki fagleg sjónarmið. Arftakar þeirra í stjórnarráðinu munu því sigla lygnan sjó ef þeim þóknast að breyta forgangsröð verkefnisstjórnarinnar.

Jarðvarminn á Reykjanesskaganum verður nýttur

Vitað er að mikill ónýttur jarðvarmi er víða á Reykjanesskaganum og samkomulagið mun ganga út á að þar verði leyft að virkja. En náttúruverndarsinnar hafa hins vegar andmælt hugmyndunum harðlega og sagt að útivistarperlum verði fórnað ef þingsályktunartillaga ráðherranna frá í ágúst verði samþykkt.

Einnig hefur verið fullyrt að jarðvarminn á Íslandi sé mun minni en ætlað hafi verið og hratt muni ganga á hann ef reistar verði stórvirkjanir. Þessu eru starfsmenn Orkustofnunar alveg ósammála. Rannsaka þurfi Reykjanessvæðið betur áður en hægt sé að áætla nákvæmlega hve mikil orkan sé en hún sé ríkuleg. Ávallt sé dregið úr dælingu hafi svæði verið ofnýtt og beðið þangað til það hafi jafnað sig.

Virkjanir í neðri hluta Þjórsár færðar niður í biðflokk

Stjórnarflokkarnir hyggjast færa þrjár fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár úr framkvæmdaflokki í biðflokk, Holtavirkjun, Hvammsvirkjun og Urriðafossvirkjun. Samanlögð orka þeirra er 265 megavött. Umhverfisráðherra neitaði í janúar 2010 að staðfesta skipulagsbreytingar sem snúa að umræddum virkjunum en Hæstiréttur dæmdi ákvörðun ráðherra ólöglega.

Landvirkjun lýsti því yfir 2007 að þessa orku ætti að nýta til annars en stóriðjuvera. En heimildarmenn benda á að hæpið sé að tala um að orka af ákveðnu svæði fari til eins fyrirtækis frekar en annars. Hringtenging orkunetsins merkir að orkan er ekki eyrnamerkt; hún getur verið framleidd fyrir austan en endað í álveri á Vesturlandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert