Samfylkingin ein með skýra ESB-stefnu

Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Sverrisdóttir og fleiri á flokksráðsfundinum í dag.
Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Sverrisdóttir og fleiri á flokksráðsfundinum í dag. Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Enn sem komið er er Samfylkingin eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur talað skýrt í þessum efnum og talað fyrir Evrópusambandsaðild og upptöku evru,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar fyrir skömmu. Hún sagði tal um Kanadadollar og norska krónu bera merki um þetta.

Einnig benti Jóhanna á að róðurinn myndi léttast með afnámi gjaldeyrishafta en í ræðu sinni fjallaði hún mikið um gjaldeyrismál og lagði áherslu á að íslenska krónan væri stærsta ógnin við stöðugleika hér á landi.

„Kæru félagar, aðild Íslands að ESB og upptaka evru skiptir miklu um framtíð Íslands og þjóðar,“ sagði Jóhanna og bætti við að slík aðild hefði sérstaklega góð áhrif fyrir ungt fólk hér á landi m.a. með lækkun skólagjalda innan Bretlands. „Átta menn sig á því að með upptöku evru minnkar stórkostlega gengisáhætta fyrir íslenska námsmenn.“

Land tækifæranna

Hún sagði einnig að hvergi í heiminum hefði stjórnarskrá verið mótuð með jafnlýðræðislegum hætti og hér hefur verið gert. Í ræðu sinni fjallar Jóhanna einna helst um Evrópumálin, nýja stjórnarskrá og þjóðareign á auðlindum.

„Hið nýja Ísland fær einfaldlega nýjan stjórnskipulegan grun mótaðan af þjóðinni fyrir þjóðina,“ sagði Jóhanna um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og bætti við að Ísland væri svo sannarlega land tækifæranna.

„Stjórnvöld hafa á undanförnum misserum tryggt námsmönnum 1.000 sumarstörf sem hafa oft á tíðum tengst námi þeirra,“ sagði Jóhanna varðandi átak stjórnvalda í atvinnumálum og bætti við að fjöldi atvinnulausra hefði nú hafið háskólanám og að um 70% þeirra hefði gengið vel í námi, þá væri stór hluti þeirra farinn af bótum.

Einnig sagði hún mikilvægt að setja fram markvissa áætlun um hvernig hægt væri að bæta lífsskilyrði ungs fólks á næstu árum. Hún sagði þetta vera í fyrsta skipti sem slík áætlun hefði verið unnin hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert