Störfum stjórnlagaráðs lokið

Frá fundi stjórnlagaráðs í dag.
Frá fundi stjórnlagaráðs í dag. Mbl.is/Árni Sæberg

Stjórnlagaráð lauk störfum nú fyrir stuttu. Ráðið hefur undanfarna fjóra daga rætt og leitast við að svara þeim spurningum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis beindi til þess.

„Við erum bara með mjög hægvirkan prentara,“ sagði Silja Bára Ómarsdóttir, fulltrúi í stjórnlagaráði, við blaðamann mbl.is klukkan 18 þegar hún var spurð hvort störfum ráðsins væri lokið.

Hún sagði ráðið vera að setjast niður og fara yfir lokaútgáfuna á svörum þess til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. „Allar svona tillögur og valkostir sem við erum að senda til baka, það hefur verið samþykkt en þetta er bara spurning um það hvernig við munum setja þetta fram,“ segir Silja Bára.

Silja Bára segir fundi ráðsins á síðustu dögum hafa gengið mjög vel. Aðspurð hvort ráðið hafi gert miklar breytingar á tillögum sínum segir Silja Bára: „Nei, þetta er í sjálfu sér ekki umfangsmikið en auðvitað erum við svona aðeins að bregðast við þessum spurningum sem að komu frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og reynum að gera grein fyrir því sem þeim fannst óljóst hjá okkur, þ.e. af hverju við höfðum lent okkar niðurstöðum eins og við gerðum, og þar sem þau gáfu í skyn að þau væru kannski ekki alveg sammála okkur þar reyndum við að benda á einhverjar leiðir til þess að sætta ólík sjónarmið.“

Stefnt er að því að ráðið afhendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis svör sín á morgun. „Við afhendum væntanlega Valgerði Bjarnadóttur á einhverjum tímapunkti á morgun en ég reikna ekki með því að það verði nein formleg athöfn af því að þetta er semsagt erindi frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en ekki erindi frá forseta Alþingis,“ segir Silja Bára.

Að sögn Silju Báru gerði ráðið engar grundvallarbreytingar á tillögum sínum. „Nei, það voru engin grundvallaratriði endurskoðuð,“ segir Silja Bára en hún segir þetta vera að meginhluta til ennþá sama skjalið og það var áður.

Silja Bára Ómarsdóttir, fulltrúi í stjórnlagaráði.
Silja Bára Ómarsdóttir, fulltrúi í stjórnlagaráði. mbl.is/Friðrik
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert