Vissi af ábyrgð Íslands á Icesave

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og ráðherra, í Landsdómi …
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og ráðherra, í Landsdómi í dag. mbl.is/Kristinn

„Mér brá því ég vissi að þá var íslenska tryggingakerfið ábyrgt fyrir innistæðunum,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, um það þegar hann frétti af innlánssöfnun Landsbankans inn á Icesave-reikninga Landsbankans í Hollandi og Bretlandi.

Steingrímur lýsti þessu yfir fyrir Landsdómi fyrir stundu og rökstuddi þá þessa skoðun sína með því að Icesave-reikningarnir hefðu verið í útibúum bankans en ekki í dótturfélagi og því hafi eftirlits- og tryggingarskylda hvílt á landinu þar sem höfuðstöðvar bankans voru.

„Ég vissi í grunninn hvernig regluverkið var,“ sagði Steingrímur í svari við fyrirspurn eins dómarans sem bað hann að skýra mál sitt þegar vitnaleiðslunni var lokið.

Fram kom í máli Steingríms að hann hefði varað við aðsteðjandi hættu í íslenska bankakerfinu og að það væri mat hans að íslensk stjórnvöld og hérlendir eftirlitsaðilar hefðu ekki tekið nógu mikið tillit til varnaðarorða innlendra sem erlendra aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert