Evrópuþingið styður aðild Íslands að ESB

Þinghús ESB í Strasbourg. Evrópuþingið.
Þinghús ESB í Strasbourg. Evrópuþingið. Ljósmynd/JPlogan

Evrópuþingið samþykkti í dag ályktun þar sem lýst er yfir stuðningi við aðild Íslands að sambandinu. Fram kemur í ályktuninni að þó að deilan um Icesave sé enn óleyst eigi það ekki að hafa áhrif á hugsanlega aðild Íslands að ESB.

Evrópuþingið samþykkti einnig ályktun um aðild Makedóníu og Bosníu Hersegóvínu að sambandinu. Í ályktuninni segir að of litlar framfarir hafi orðið í Bosníu Hersegóvínu í þeim málum sem ESB hafi lagt áherslu á.

Í ályktun Evrópuþingsins segir að þinginu sé kunnugt um að aðild Íslands að ESB sé pólitískt deilumál á Íslandi, en það voni að Ísland verði aðili að sambandinu. Ísland sé eitt af elstu lýðræðisríkjum í Evrópu. Fram kemur að þingið sé ánægt með það sem Ísland hafi gert til að uppfylla kröfur ESB.

Í skýrslu um aðildarviðræðurnar við Ísland segir að viðræðurnar þróist í rétta átt. Aukinn þungi hafi færst í viðræðurnar á síðasta ári. Þingið líti svo á að ágreiningur um Icesave eigi ekki að koma í veg fyrir að Ísland geti orðið aðili að ESB. Tekið er fram að enn hafi ekki náðst samkomulag milli Íslands og ESB um veiðar á makríl og einnig sé ágreiningur um hvalveiðar sem séu óheimilar í ESB. Þingið segir að vinna verði meira í viðræðum um ríkisafskipti, einkum í bankakerfinu, orkuiðnaði og í flutningastarfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert