Mótmæla aðlögun að ESB fyrir þjóðaratkvæði

AP

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, harmar í tilkynningu að miklum fjármunum sé sóað í aðlögun á stjórnsýslu Íslands að löggjöf Evrópusambandinu án þess að íslenska þjóðin hafi fengið að segja álit sitt á málinu. „Hvorki íslenskir kjósendur né meirihluti Alþingis hefur veitt slíkar víðtækar heimildir til aðlögunar, enda var því ávallt haldið fram að um könnunarviðræður væri að ræða.“

Tilefnið er auglýsing sem birtist í dagblöðum um síðustu helgi frá embætti Ríkisskattstjóra þar sem auglýst var eftir verkefnastjóra til starfa við aðlögun tölvukerfa stofnunarinnar að kröfum Evrópusambandsins.

„Með þessu er staðfest enn eitt dæmið um að um aðlögunarferli sé að ræða en ekki aðildarviðræður. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir í viðtali við Morgunblaðið í dag [í gær] „... þetta snýst um að aðlaga tölvukerfi skattyfirvalda ef til aðildar kemur.“ Með öðrum orðum á að vinna að aðlöguninni áður en samþykkt er að ganga í ESB,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert