„Veit ég á honum lífið að launa“

Ffrá vinstri. Einar Óli Fossdal stjúpfaðir Sigurðar Smára sem er …
Ffrá vinstri. Einar Óli Fossdal stjúpfaðir Sigurðar Smára sem er við hlið hans. Þá kemur Kári Kárason bjargvætturinn og lengst til hægri er Pétur Arnar Kárason, sonur Kára en hann var með honum í bílnum þegar þeim komu að slysinu. Jón Sigurðsson

Þegar ég átta mig á því hvað er að gerast er það fyrsta sem ég hugsa að ég sé að fara að drukkna. Að þetta sé bara búið," segir Sigurður Smári Fossdal, sem lenti á hvolfi úti í Laxá á Ásum í fyrradag. Sigurður þakkar snarræði vegfaranda, Kára Kárasonar slökkviliðsmanns, að hann skuli enn vera til frásagnar.

„Ég tók mér sveitarúnt um Húnavelli og er bara að keyra þjóðveginn heim að Blönduósi þegar það næsta sem ég veit er að bíllinn er á hvolfi ofan í Laxánni," segir Sigurður, sem var útskrifaður af sjúkrahúsinu á Akureyri um hádegi í gær. Sigurður segist hafa reynt að rifja upp hvað varð til þess að bíllinn valt ofan í ána en það sé mjög óljóst. Í bíltúrnum hafði hann þó þrisvar farið út úr bílnum til að kanna hvort dekkið væri sprungið því honum fannst bíllinn rása óvenjumikið á veginum. Það virtist þó heilt og taldi hann því að slæmum skilyrðum á malarvegunum væri um að kenna. Ekki liggur fyrir hvort bilun í bílnum hafi valdið slysinu. 

Fastur í beltinu á hvolfi í ískaldri ánni

Þegar Sigurður rankaði við sér var hann á hvolfi í ánni og fann ískalt vatnið streyma inn. Þá hélt hann að hann myndi drukkna, en sem betur fer skorðaðist bíllinn þannig af að hann fór aldrei alveg á kaf. „Það er víst risahylur í ánni þar sem ég lenti, svo það var slembilukka að það var ís ofan á hylnum þannig að bíllinn fór ekki dýpra,“ segir Sigurður. Engu að síður var hann umluktur vatni.

„Ég náttúrlega panikkeraði og reyndi að rífa mig lausan úr beltinu, en það gekk ekki því ég hékk á hvolfi í því. Þegar ég sá að vatnið var hætt að streyma inn reyndi ég að einbeita mér að því að halda höfðinu upp úr og gat það nokkurn veginn, en ég varð strax allur dofinn og stífur.“

Sigurður segir að bæði kuldinn og hræðslan hafi náð tökum á honum og lamað hann þegar hann áttaði sig á því að hann væri algjörlega fastur og gæti ekkert gert annað en að berjast við að halda sér upp úr vatninu. „Ég hafði í rauninni ekki trú á því að það væri neinn nálægt mér en ákvað samt að garga á hjálp því það var það eina sem ég sá í stöðunni. Þá heyri ég einhverja skruðninga og síðan er rifin upp hurðin farþegamegin þar sem ég held höfðinu uppi og þar er þá kominn góður maður, Kári Kárason,“ segir Sigurður. 

Gott að sjá kunnuglegt andlit

Hann segir mikla lukku að Kári skyldi sjá þegar bíllinn fór út af veginum, því niðri við ána var hann í hvarfi. „Kári byrjar að tala við mig og halda höfðinu á mér upp úr vatninu. Ég var orðinn helvíti máttfarinn strax en hann var alltaf að segja mér að fara ekki með höfuðið ofan í. Þetta er svolítið móðukennd minning, eins og ég hafi alltaf verið að detta út, en ef hann hefði ekki komið þarna væri ég ekki að tala við þig núna,“ segir Sigurður.

Kári Kárason kom á vettvang ásamt 13 ára syni sínum eins og fram kom í viðtali Mbl.is við hann í gær og hringdi sonurinn á Neyðarlínuna á meðan Kári hjálpaði Sigurði. Svo vill til að þeir búa við sömu götu á Blönduósi og segir Sigurður það hafa verið afar góða tilfinningu að sjá kunnuglegt andlit og vita að hann væri ekki einn. „Það var mjög notalegt. Þegar ég sá Kára birtist vonarglæta og ég hugsaði með mér að þetta myndi sjálfsagt bjargast. Mér leið strax betur.

Áfallið kom þegar hann sá pabba sinn

Fyrir tilviljun voru margir vanir menn komnir á örstuttum tíma á vettvang. Sonur Kára stöðvaði bíl sem í voru Þorbjörn Guðrúnarson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, og sjúkraflutningamenn á frívakt. Innan skamms kom svo sjúkrabíll frá Blönduósi, þ.á m. faðir Sigurðar, Einar Óli Fossdal sjúkraflutningamaður. Hann var raunar líka á frívakt en rauk til vinnu þegar útkallið barst.

Þegar fleiri voru komnir á staðinn var hægt að skera Sigurð lausan úr beltinu. „Þegar ég losnaði datt ég ofan í vatnið og eftir það varð ég rosalega ringlaður. Ég var borinn upp á veg og gerði mér eiginlega enga grein fyrir því í hverju ég hafði lent fyrr en ég sá pabba á slysstað. Þegar ég sá hann fékk ég algjört áfall og byrjaði bara að grenja,“ segir Sigurður.

Ætlar að banka upp á hjá Kára

Hann var í snarhasti færður úr blautu fötunum og vafinn inn í teppi og heita bakstra. Þegar hann kom á sjúkrahúsið á Blönduósi var líkamshitinn mældur og reyndist vera 32°C og hafði honum þó hlýnað nokkuð á leiðinni, en ofkæling er skilgreind við líkamshita undir 35°C. „Ég var alveg stífur í líkamanum öllum, dofinn í andlitinu og fingurnir krepptir í hnefa alveg frá því þetta gerðist og þar til ég kom á sjúkrahúsið.“ Sigurður var svo fluttur til Akureyrar þaðan sem hann útskrifaðist um miðjan dag í gær, óbrotinn og án sjáanlegra áverka, en þó allur lurkur laminn og lemstraður.

„Ég er ekki alveg búinn að átta mig á þessu ennþá. Það kemur hægt og rólega, en ég held ég megi algjörlega þakka viðbrögðum Kára að ekki fór verr,“ segir Sigurður. Hann ákvað að fara á slysstaðinn strax í gær, eftir að hann hafði útskrifast af sjúrahúsinu, til að skoða aðstæður og reyna eftir getu að vinna úr slysinu. Hann sagði jafnframt gott að ekki væri langt að fara yfir til nágranna síns, til að þakka honum lífgjöfina. „Ég vil þakka Kára og Pétri syni hans kærlega fyrir. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ef ekki væri fyrir þá hefði miklu verr farið. Ég veit vel að ég á honum lífið að launa.“

Við Laxá á Ásum í Austur- Húnavatnssýslu.
Við Laxá á Ásum í Austur- Húnavatnssýslu. mbl.is
Kári Kárason slökkviliðsmaður og framkvæmdastjóri Vilkó.
Kári Kárason slökkviliðsmaður og framkvæmdastjóri Vilkó.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert