Ísland góður markaður fyrir Domino's

Patrick Doyle, forstjóri yfir Domion‘s veitingahúsakeðjunnar í heiminum.
Patrick Doyle, forstjóri yfir Domion‘s veitingahúsakeðjunnar í heiminum. Morgunblaðið/Sigmundur

„Ísland hefur alltaf reynst góður markaður fyrir okkur og það gengur vel hér,“ segir J. Patrick Doyle, forstjóri Domino's-veitingahúsakeðjunnar í heiminum. Hann er staddur á Íslandi í stuttri heimsókn, meðal annars til að opna nýjan stað á Selfossi, sem er sá fimmtándi í röð Domino's-staða hér á landi.

Doyle er þriðji forstjóri fyrirtækisins frá upphafi, tók við stöðunni árið 2010, en Domino's varð til í Michigan í Bandaríkjunum árið 1960.

Doyle var valinn forstjóri ársins, „CEO of the Year“, í fyrra af viðskiptasjónvarpsstöðinni CNBC, en fyrirtækið hefur náð góðum árangri og vaxið hratt á markaði á undanförnum tveimur árum. Fyrirtækið er skráð á markaði undir NYSE og stóð á föstudag í rúmum 40 dollurum á hlut, en var í rúmum 11 dollurum í ársbyrjun 2010. „Ég held þó að ekki sé hægt að segja að rekstur eins og okkar sé laus við áhrif kreppunnar,“ segir Doyle. „Við vitum að við getum frekar selt fólki sem hefur vinnu pítsur en þeim sem eru atvinnulausir,“ segir hann.

Vöxtur fyrirtækisins að undanförnu hefur ekki síst verið utan heimalandsins og rekur Doyle árangurinn einkum til þess hve fyrirtækinu gengur vel í öðrum heimsálfum. „Við komum á fót 400 nýjum stöðum í fyrra, nánast öllum utan Bandaríkjanna,“ segir Doyle. Hann reiknar með að árið 2012 verði sala á pítsum á Domino's-stöðum utan Bandaríkjanna í fyrsta sinn meiri en á heimamarkaði.

Domino's opnaði sinn fyrsta stað á Íslandi í ágúst 1993, og rekur nú sem fyrr segir fimmtán slíka staði. Doyle segist þekkja vel til starfsmanna fyrirtækisins hér á á landi og hefur einu sinni komið hingað áður og fylgist vel með þróun starfseminnar hér. „Ég var reyndar ekki orðinn forstjóri þegar ég kom síðast,“ segir hann. Og hann reiknar með frekari fjölgun staða í framtíðinni. „Ég held að við getum reiknað með að við opnum fleiri staði hér á Íslandi, ég sé fyrir mér að minnsta kosti þrjá nýja staði, og vonandi fá þeir eins góðar viðtökur og þessi hér á Selfossi,“ segir Patrick Doyle, sem fer af landi brott ásamt föruneyti á morgun. 

Selfyssingar tóku vel á móti nýja pítsastaðnum.
Selfyssingar tóku vel á móti nýja pítsastaðnum. Morgunblaðið/Sigmundur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert