Mörg snjóflóð fallið

Kort Veðurstofu Íslands yfir snjóflóð sem fallið hafa.
Kort Veðurstofu Íslands yfir snjóflóð sem fallið hafa. Mynd/Veðurstofa Íslands

Mörg snjóflóð hafa fallið á Siglufirði og Ólafsfirði eftir snjókomu í gærdag. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er víða nokkuð stífur vindfleki á yfirborði á utanverðum Tröllaskaga en undir honum lausari snjór ofan á hjarni. Aðgát skal höfð þar sem svo háttar til.

Snjóflóðin eru þurr flekahlaup og féllu sum þeirra nokkuð langt niður. Þá settu vélsleðamenn af stað tvö flekahlaup á Dalvík í bröttum fjallsbrúnum sem vita mót austri um hádegi í dag. Flekahlaup nefnast flóð þar sem heill fleki af vindpökkuðum snjó fer af stað í einu.

Ekki er vitað til þess að nokkur hafi slasast vegna snjóflóðanna né skemmdir orðið.

Snjóflóðin eru flest á bilinu 2,5-3 að stærð, en þau sem falla í flokk þrjú eru um þúsund tonn að massa og geta grafið og eyðilagt fólksbíl, grafið vörubíl, skemmt hús eða eyðilagt minni byggingar, samkvæmt því sem segir á vefsvæði Veðurstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert