Sáttur við endurgreiðslur frá Íslandi

mbl.is/Brynjar Gauti

„Ég er mjög ánægður með þróun mála til þessa við að endurheimta íslenskar innistæður okkar. Þetta er allt annað ferli en það sem sumir gerðu ráð fyrir árið 2008 og fyrrihluta 2009 þegar því var haldið fram að allir peningarnir sem við áttum á Íslandi væru glataðir að eilífu,“ segir Stephen Robinson, bæjarráðsmaður í South Ribble í Lancashire-sýslu á Englandi, í samtali við fréttavef breska blaðsins Lancashire Evening Post í dag en hann sér um fjármál bæjarráðsins.

Fram kemur í fréttinni að bæjarráð South Ribble hafi átt fimm milljónir punda í Landsbanka Íslands og Heritable-bankanum breska sem var í eigu bankans. Um helmingur þess fjármagns hafi nú verið endurheimtur. Þar af fékkst til baka nýverið ein milljón punda í kjölfar staðfestingar Hæstaréttar Íslands á gildi neyðarlaganna sem sett voru í kjölfar bankahrunsins en þau gerðu meðal annars innistæður að forgangskröfum í bú íslensku bankanna.

Þá átti bæjarráðið um tvær milljónir punda í Heritable-bankanum en 1,4 milljónir hafa nú verið endurheimtar af þeirri fjárhæð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert