Hafnað að veita afbrigði vegna þingsályktunartillögunnar

mbl.is/Hjörtur

„Ég skora á þingmenn að vera ekki hræddir við fólkið í landinu,“ sagði Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í þinginu í dag og vísaði þar til þingsályktunartillögu um að tillögu stjórnlagaráðs verði vísað til þjóðaratkvæðis í sumar samhliða forsetakosningum. Fékk hún talsverðar undirtektir í þinginu vegna þessara orða sinna.

Valgerður lét þessi orð falla áður en gengið var til atkvæða um það hvort veita ætti afbrigði vegna tillögunnar en hún var lögð fram í gær. Tvo þriðju hluta atkvæða þarf til þess að leita afbrigða en aðeins studdu 30 þingmenn það en 20 voru á móti.

Fyrir atkvæðagreiðsluna gagnrýndi Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, það að óskað væri eftir afbrigðum vegna málsins. Sagði hann það dæmigert fyrir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar að óska þyrfti eftir afbrigðum vegna tímaskorts. Vildi hann að meiri tími yrði veittur til þess að þingmenn gætu kynnt sér málið þegar eins stórt mál væri undir og endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi það einnig hvernig staðið hefði verið að stjórnarskrármálinu í heild og sagði ekki tímabært að leggja málið í dóm þjóðarinnar fyrr en vinnu væri lokið við tillögur stjórnlagaráðs. Sagði hann að kjósendur þyrftu að búa yfir spádómsgáfu til þess að geta tekið þátt í þjóðaratkvæðinu og vita þar með hvað yrði gert með niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu málið og þar á meðal Illugi Gunnarsson, Pétur H. Blöndal og Unnur Brá Konráðsdóttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist vilja skoða þann möguleika að málinu yrði frestað þar til á morgun og boðað til sérstaks þingfundar þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert