Dæmdir fyrir skotárás í Bryggjuhverfinu

Frá aðalmeðferðinni.
Frá aðalmeðferðinni. mbl.is/Sigurgeir

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag tvo karlmenn til refsingar vegna skotárásarinnar í Bryggjuhverfinu 18. nóvember sl. Mennirnir fengu fjögurra ára fangelsi og átján mánaða fangelsi. Þriðji maðurinn sem var ákærður var hins vegar sýknaður. 

Mennirnir, Axel Már Smith, Kristján Halldór Jensson og Tómas Pálsson Eyþórsson, voru allir ákærðir fyrir tilraun til manndráps með því að hafa að kvöldi föstudagsins 18. nóvember 2011 farið saman á bifreið á bifreiðastæði við bifreiðasöluna Höfðahöllina að Tangarbryggju 14 í Reykjavík, þar sem þeir höfðu mælt sér mót við mann vegna ágreinings um fjárskuld.

Í ákæru segir að Kristján Halldór hafi skotið úr haglabyssu einu skoti í áttina að bíl mannsins, en ekki hæft. Þegar svo maðurinn ók á brott veittu mennirnir honum eftirför og skaut Kristján Halldór öðru skoti út um glugga bifreiðarinnar. Við skotið brotnaði afturrúða bíls fórnarlambsins og miklar skemmdir urðu á bifreiðinni.

Farið var fram á sex ára fangelsi yfir Kristjáni fyrir þátt sinn, þriggja ára fangelsi yfir Tómasi, sem hafi átt upptökin að málinu en einng upplýst um þátt annarra hjá lögreglu, og tveggja ára fangelsi yfir Axel, en hans þáttur er talinn minnstur.

Kristján hlaut fjögur ár

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að Kristján Halldór skuli sæta fjögurra ára fangelsi fyrir þátt sinn í skotárásinni og Tómas átján mánaða fangelsi.  Axel Smith var sýknaður en gert að greiða 66 þúsund króna sekt fyrir minniháttar fíkniefnabrot.

Saman skulu Tómas og Kristján greiða því fórnarlambi sem ekki dró bótakröfu sína til baka 600 þúsund krónur í miskabætur og eina milljón króna í annan sakarkostnað.

Allir sæta mennirnir varðhaldi og hafa gert frá því fyrir áramót. Niðurstaðan þýðir að Axel verður sleppt úr haldi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert