Fréttaskýring: Makríldeilan í hnotskurn

mbl.is

Deila Íslendinga við Evrópusambandið og Norðmenn um veiðar á makríl hefur nú staðið yfir síðan skömmu fyrir bankahrunið hér á landi haustið 2008 þegar makríll fór að ganga í mun meira mæli inn í íslensku efnahagslögsöguna en áður hafði verið. Fram að því var litið á makrílinn fyrst og fremst sem svokallaðan flæking á Íslandsmiðum og íslensk fiskiskip veiddu hann aðallega sem meðafla með öðrum fisktegundum og þá ekki síst síld og loðnu.

Samningaviðræður um stjórn makrílveiða á norðausturhluta Atlantshafs fóru fyrir vikið áður ekki fram með þátttöku Íslendinga heldur einungis á milli Evrópusambandsins, Norðmanna og Færeyinga. Íslensk stjórnvöld höfðu í besta falli með áheyrnarfulltrúa en höfðu hins vegar ítrekað farið fram á það að fá sæti við samningaborðið. Norðmenn og Evrópusambandið töldu hins vegar ekki ástæðu til þess þar sem Íslendingar hefðu ekki næga aðkomu að málinu.

Breyting varð hins vegar á þessu þegar makríllinn fór að ganga í vaxandi mæli inn í íslensku lögsöguna og íslensk fiskiskip fóru í kjölfarið að veiða hann í miklum mæli. Evrópusambandið og Norðmenn vildu þá setja veiðum Íslendinga takmörk og fá þá að samningaborðinu. Samningar hafa hins vegar ekki náðst þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess og hafa íslensk stjórnvöld á meðan nýtt rétt sinn samkvæmt alþjóðasamningum til þess að gefa út einhliða makrílkvóta innan íslensku lögsögunnar.

Ekki beinir aðilar að deilunni

Makríldeilan hefur á stundum, einkum í ýmsum erlendum fjölmiðlum, verið borin saman við þorskastríðin sem Íslendingar háðu við Breta á síðustu öld. Þó deilan um makrílveiðarnar eigi það sameiginlegt með þorskastríðunum að snúast um fiskveiðar hefur hún ekki átt sér stað með skærum íslenskra varðskipa og breskra herskipa líkt og í þorskastríðunum heldur fyrst og síðast farið fram á pólitískum og diplómatískum forsendum.

Munurinn byggist einna helst á þeirri staðreynd að í dag hafa Íslendingar viðurkennd yfirráð yfir 200 mílna efnahagslögsögu í kringum Ísland samkvæmt alþjóðasamningum en í þorskastríðunum litu Bretar svo á að þeir væru að veiða á alþjóðlegu hafsvæði og töldu sig því í fullum rétti til þess að senda herskip þangað til þess að gæta hagsmuna sinna. Þá er því einnig fyrir að fara að stjórn sjávarútvegsmála Breta hefur verið framseld til Evrópusambandsins.

Bresk stjórnvöld eru því ekki beinir aðilar deilunnar heldur aðeins í gegnum veru sína í Evrópusambandinu og sama er að segja um írska ráðamenn. Þeir hafa fyrir vikið ekki verið í aðstöðu til þess að beita sér mikið í málinu nema með því að hvetja framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til þess að grípa til aðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum sem einnig hafa gefið út einhliða makrílkvóta undanfarin ár þar sem ekki hafa nást samningar um veiðarnar.

Ólík sjónarmið deiluaðila

Evrópusambandið hefur ásamt breskum og írskum stjórnvöldum sakað Íslendinga og Færeyinga um óábyrgar veiðar á makríl og jafnvel rányrkju og fyrir að stofna makrílstofninum í hættu. Ofveiði á makríl hefur verið verulegt vandamál til þessa og hafa írskar útgerðir einkum verið sakaðar um slíkt. Þá hefur verið bent á mikilvægi makrílsins fyrir breskt (þá aðallega skoskt) og írskt efnahagslíf og að Íslendingar byggju ekki yfir sögulegri veiðireynslu þegar kemur að veiðum á makríl.

Íslendingar og Færeyingar hafa á móti hafnað því að veiðar þeirra væru óábyrgar og lagt áherslu á að taka yrði tillit til breyttrar gengdar makrílstofnsins við skiptingu makrílkvótans. Það væri óásættanlegt að makríllinn gengi í vaxandi mæli inn í lögsögur Íslands og Færeyja í ætisleit og tæki þar með æti frá öðrum fisktegundum. Hann færi síðan út úr lögsögunni og væri í kjölfarið veiddur af fiskiskipum Norðmanna og Evrópusambandsins eftir að hafa fitað sig á íslenskum og færeyskum miðum.

Íslendingar hafa gert kröfu um að fá úthlutað um 16-17% af árlegum heildarkvóta vegna makrílveiða sem miðaður er við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Einhliða makrílkvóti á Íslandsmiðum í ár er í samræmi við það en hann nemur rúmlega 145 þúsund tonn. Færeyingar gáfu nýverið að sama skapi einhliða út rúmlega 148 þúsund tonna kvóta og Evrópusambandið og Noreg sömdu sín á dögunum um rúmlega 396 þúsund tonn fyrir sambandið og rúmlega 181 þúsund tonn fyrir Norðmenn.

Viðskiptaþvingunum hótað

Síðasta samningafundi um makríldeiluna lauk í Reykjavík 16. febrúar síðastliðinn án árangurs þar sem semja átti um makrílkvóta þessa árs. Reyndist sem fyrr of langt á milli deiluaðila. Samninganefnd Íslendinga mun hafa verið reiðubúin að fallast á 15% af heildarkvótanum en Evrópusambandið og Norðmenn buðu 7%. Í kjölfarið hafa forystumenn Breta og Íra lagt aukna áherslu á það við sambandið að gripið verði til viðskiptaþvingana gegn Íslendingum og Færeyingum.

Fram hefur komið í erlendum fjölmiðlum að slíkar aðgerðir muni felast í löndunarbanni á makríl frá Íslandi og Færeyjum og afurðum úr makríl. Einnig öðrum uppsjávartegundum sem og innflutningi frá löndunum tveimur á skipum og tæknibúnaði til sjósóknar. Ekki virðist þó enn ljóst hvort það verði niðurstaðan en málið hefur ekki verið endanlega afgreitt af stofnunum Evrópusambandsins og á Evrópuþingið meðal annars eftir að fjalla um það.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt á það áherslu að slíkar viðskiptaþvinganir væru meðal annars brot gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) fyrir utan löndunarbann á makríl. Ríkjum er heimilt að banna löndun á fisktegundum sem ekki eru samningar um. Slíkt bann er þannig í gildi hér á landi vegna löndunar erlendra skipa á makríl af þeirri ástæðu. Hins vegar hafa íslensk skip ekki verið að landa makríl í ríkjum Evrópusambandsins eða í norskum höfnum.

Tengslin við ESB-umsóknina

Ein hlið makríldeilunnar er tengsl hennar við umsókn íslenskra stjórnvalda um inngöngu í Evrópusambandið en deilt hefur verið talsvert um það hér á landi hvort þar væru einhver tengsl á milli. Íslenskir ráðamenn hafa ítrekað lagt á það áherslu að um væri að ræða algerlega óskyld mál og ekki væri ásættanlegt ef þetta væri tengt saman. Ýmsir aðrir, og þar á meðal stjórnarandstöðuþingmenn, hafa á hinn bóginn haldið því fram að um bein tengsl væri að ræða.

Meðal annars hefur verið vísað í ummæli forystumanna innan Evrópusambandsins því til stuðnings að málin tvö tengdust og nú síðast í sjávarútvegsráðherra Írlands, Simon Coveney, sem sagði fyrr í þessum mánuði að hann teldi að erfitt yrði að hefja viðræður um sjávarútvegsmál í tengslum við umsóknina á meðan makríldeilan væri enn óleyst. Viðræðurnar eru þó fyrst og fremst á forræði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins en ekki einstakra ríkja sambandsins.

Hvort sem makríldeilan kann að hafa áhrif á viðræðurnar í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið þá er á hinn bóginn ljóst að endanlegur samningur um inngöngu Íslands, komi til hans, er háður samþykki stjórnvalda allra ríkja sambandsins og þar á meðal Bretlands og Írlands. Miðað við fyrri samninga um inngöngu ríkja í Evrópusambandið er ljóst að slíkur samningur yrði ekki settur í slíkt samþykktarferli nema ljóst væri að Bretar og Írar létu ekki steyta á makríldeilunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert