Búrhvalur á land undir Jökli

Búrhval hefur rekið á land á Snæfellsnesi. Að sögn Skúla Alexanderssonar, íbúa á Hellissandi, er hvalurinn talsvert stór og alveg óskemmdur svo líklegt má telja að hann sé nýrekinn á land.

Hvalinn rak á land í fjörunni við Klofningsrétt í Beruvík. Að sögn Skúla er auðvelt að komast að hvalnum og eru þó nokkrir vegfarendur á vettvangi að skoða hann. „Það er alveg hægt að klappa honum. Það getur verið að á háflóði falli í kringum hann, en hann er ótrúlega hátt uppi."

Skúli segist ekki hafa þekkingu til að leggja mat á aldur eða kyn dýrsins en giskar á að það sé fullvaxið, miðað við stærð þess. „Þetta er alveg ótrúleg sjón, ekki síst fyrir marga hverja sem aldrei hafa séð hval."

Búrhvalir eru gjarnari en önnur stórhveli að synda eða reka á land þótt orsakir þess séu lítt þekktar. Fram kemur á Vísindavefnum að þegar líkamsástand strandaðra hvala er skoðað virðist það hjá langflestum þeirra vera gott.

Búrhvalir eru margir tugir tonna á þyngd. Tarfarnir geta náð 15-20 metra lengd en kýrnar verða 11-13 metra langar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert