Hvalurinn rannsakaður á morgun

Búrhvalurinn sem rak á land á Hellissandi er stærðar skepna.
Búrhvalurinn sem rak á land á Hellissandi er stærðar skepna. Mbl.is/Hrefna Magnúsdóttir

Um 10-15 hvalrekar sem vitað er af verða árlega við Ísland. Að sögn Gísla Víkingssonar, hvalasérfræðings hjá Hafrannsóknastofnun, er oftast engin sjáanleg ástæða fyrir því að þeir synda eða þá rekur upp í fjörur. Stærðarinnar búrhval, 12-15 metra á lengd, rak á land í Beruvík á Snæfellsnesi í dag.

„Þeir geta drepist af náttúrulegum orsökum og þá svo kannski rekið á land," segir Gísli. Búhvalurinn sem fannst í dag, í Beruvík á Sæfellsnesi, var að sögn fréttaritara Morgunblaðsins á Hellissandi, afar heillegur og ekkert byrjaður að rotna. Gísli segir ástæðu þess að búrhvali reki frekar á land en önnur stórhveli kannski helst að rekja til þess að hann fljóti betur en skíðishvalirnir, sem sökkva þá frekar ef þeir drepast úti á sjó.

Kafa djúpt og sjást því sjaldnar

Búrhvalir hafa ekki verið veiddir hér við land síðan árið 1981 og er talsverður fjöldi af þeim í sjónum við Ísland. Þeir halda sig hinsvegar yfirleitt talsvert frá landi og oft á miklu dýpi, en búrhvalir eru meðal þeirra hvala sem getað kafað hvað dýpst og lengst. Þeir eru stundum hátt í klukkustund á allt að 500 metra dýpi. Búrhvalir eru því ekki meðal þeirra tegunda sem oftast ber fyrir augu t.d. í hvalaskoðun, þótt mikið sé af þeim við landið. 

Aðeins er tæpur mánuður síðan hvalreki varð hér síðast, því í byrjun mars drapst hnúfubakur í sjónum við Stokkseyri og rak hræið þar á land. Þegar hvalreki verður kemur til kasta Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands sem og lögreglu að bregðast við. Gísli segir að gera megi ráð fyrir því að Hafró sendi mann á staðinn á morgun til að rannsaka hvalinn.

Vesen að flytja 60 tonna hval

Allur gangur er svo á því hvort hvalir eru fjarlægðir eða þeim leyft að liggja og eyðast af sjálfu sér og er það oftast undir sveitarfélaginu komið. „Þetta er oft dálítið vesen að flytja svona," segir Gísli enda getur fullvaxinn búrhvalur orðið hátt í 60 tonn á þyngd. „Ef þeir eru til ama, til dæmis mjög nálægt byggð og ef það er lýsisbrák af þeim eða annað þá eru þeir ýmist togaðir út á sjó aftur og reynt að sökkva þeim þar eða þeir eru urðaðir."

Aðspurður segir hann að ekkert sérstakt þurfi að varast í námunda við hvalhræ, en fram kom á Mbl.is fyrr í dag að gott aðgengi er að búrhvalnum í Beruvík og lögðu nokkrir leið sína þangað í dag til að skoða hann.

Búrhvalurinn sem rak á land á Hellissandi er stærðar skepna.
Búrhvalurinn sem rak á land á Hellissandi er stærðar skepna. Mbl.is/Hrefna Magnúsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert