Ill meðferð á dýrum þjóðarsmán

Útigangshross á Mýrum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Útigangshross á Mýrum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mbl.is/Brynjar Gauti

Víða er illa farið með dýr á Íslandi árið 2012. Þetta segir Sigurður Sigurðarson, fyrrverandi yfirdýralæknir. Sigurður segir að vinnubrögð eftirlitsaðila séu ómarkviss og uppræta þurfi þá þjóðarsmán sem ill meðferð á dýrum sé. 

Sigurður, sem býr á Selfossi, ritar grein sem birtist á vef Dagskráarinnar í dag þar sem segir að of víða megi sjá skjóllaus og vanfóðruð hross og nautgripi á útigangi, ekki síst á Suðurlandi þar sem úrkoma og umhleypingar séu meiri en víðast hvar annars staðar. 

Hrakleg vist útigangsgripa

Sigurður segir að sér berist oft ábendingar frá ýmsum stöðum á landinu um hross og nautgripi sem hími „við hraklega vist í skjólleysi á nauðbitnu landi" og lítið sé flutt til þeirra af fóðri, jafnvel dögum saman. Hann hafi heyrt frá mörgum aðilum í ferðaþjónustu sem skammist sín þegar þeir þurfi að svara fyrir þetta gagnvart útlendingum á ferð um landið. 

„Það er ósanngjarnt og rangt að  saka alla hestamenn um illa meðferð á hestum sínum  eins og örlað hefur á og að þeir tími ekki að gefa þeim hey. Ég veit, að flestir hrossaeigendur og hestamenn fara vel með sína gripi og hafa aðbúnaðinn óaðfinnanlegan. Heiður sé þeim. Hinir þurfa að bæta ráð sitt. Það þarf að safna glóðum elds að höfðum þeirra fáu, sem spilla mannorði annarra hestamanna og þjóðarinnar, brjóta lög og reglur og fara illa með skepnur og láta þá engan frið fá, uns þeir hafa bætt ráð sitt," segir Sigurður í greininni. 

Ætti að vera leyfisskylt að halda búfé

Sigurður segist þekkja það af eigin reynslu að erfitt geti verið fyrir eftirlitsaðila að koma fram úrbótum þegar þeir mæti ósamvinnuþýðum mönnum. En hann telur vanta upp á vilja og öguð, hiklaus vinnubrögð til hjálpar dýrum. Málin taki allt of langan tíma og réttur eigenda til að ráða yfir og græða á dýrum sínum sé oft metinn hærri af dómurum en réttur dýranna til fóðurs og vatns, lífs og heilsu. 

„Það ætti að vera leyfisskylt til eins árs í senn að hafa búfé og auðveldara þyrfti að vera en nú að svipta þá leyfinu sem bregðast. Hinir, sem allt hafa í lagi fái endurnýjun leyfis sjálfkrafa," segir Sigurður. 

Grein Sigurðar Sigurðarsonar í heild

Sigurður Sigurðarsson fyrrverandi yfirdýralæknir.
Sigurður Sigurðarsson fyrrverandi yfirdýralæknir. Mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert