Sigmundur Davíð slær á létta strengi

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is

Forsetakosningarnar voru ræddar í Silfri Egils í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að eflaust bjóði sig einhverjir fram á móti Ólafi Ragnari Grímssyni í forsetakosningunum í sumar. Hann sló hins vegar á létta strengi í Silfri Egils í dag enda farið að styttast í þingkosningar sem honum finnast meira spennandi en komandi forsetakosningar.

Spurði Sigmundur Davíð Egil Helgason, þáttastjórnanda, að því hvort hann hefði ekki tekið eftir því hvað lægi vel á honum í dag og hann hefði lítið gripið fram í fyrir þeim sem væru með honum í þættinum. Uppskar hann hlátur frá öðrum gestum þáttarins fyrir þessi ummæli sín sem og frá Agli.

Sigmundur Davíð vildi ekki tjá sig um hvern hann myndi styðja í forsetakosningunum. Enda væri hann ekki viss um að menn myndu telja sér það til tekna að fá stuðningsyfirlýsingu frá honum.

Fyrri Icesave-ákvörðunin rétt, segir Árni Páll

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að Ólafur Ragnar hefði staðið sig vel í starfi. Fyrri ákvörðun Ólafs Ragnars varðandi fyrri Icesave-samninginn hefði verið rétt ákvörðun þó svo að honum (Árna Páli) hefði ekki fundist það á sínum tíma.

Hefur aldrei stutt Ólaf Ragnar

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, segist telja að Ólafur Ragnar og stuðningsmenn hans þurfi að hafa verulegar áhyggjur af stöðu hans enda hafi hann haldið þjóðinni í gíslingu undanfarin misseri.

Álfheiður sagði í þættinum að hún hefði aldrei verið stuðningsmaður Ólafs Ragnars.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist telja að Ólafur Ragnar hefði komist að réttri niðurstöðu í nýársávarpinu, um að hætta sem forseti í sumar. Bjarni velti því fyrir sér hvort það hefði verið rétt ákvörðun hjá Ólafi Ragnari að hætta við að hætta. Það væri alltaf erfitt að finna rétta punktinn til að hætta og spurning hvenær rétti punkturinn kæmi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert