Ólafur Ragnar á norðurslóðaráðstefnu

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands mbl.is/Golli

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, flytur í dag lokaræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um framtíð norðurslóða sem haldin er af Fletcher School við Tufts-háskólann í Boston.

Ræða forseta ber heitið „The Arctic: A New Model for Global Cooperation“.

Upphafsræðu ráðstefnunnar flutti í gær John Kerry, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings og forsetaframbjóðandi demókrata árið 2004.

Þátttakendur í ráðstefnunni eru sérfræðingar og áhrifamenn í málefnum norðurslóða, svo og prófessorar og nemendur við Tufts-háskólann.

Á ráðstefnunni er fjallað um hvernig haga beri nýtingu auðlinda á norðurslóðum, umhverfisvernd og þróun frekari samvinnu. Einnig er rætt um áhrif norðurslóða á heimsvísu, hvaða lærdóma megi draga af reynslu síðustu ára og hvernig bregðast eigi við aukinni sókn ríkja frá öðrum heimshlutum, t.d. Asíu og Evrópu, í aðgang að norðurslóðum og auðlindum þeirra, segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.

Í ræðu sinni mun forseti fjalla um samstarfsformið sem fest hefur verið í sessi á norðurslóðum, þátt almannasamtaka, frumbyggja og vísindasamfélags í stefnumótun, árangur af opnari vinnubrögðum en tíðkast hafa á öðrum sviðum alþjóðamála og aðhaldið sem áherslur á lýðræði og vísindarannsóknir skapa stefnumótuninni.

Þá mun forseti reifa hvernig það samstarfsform sem ríkin á norðurslóðum hafa mótað á síðastliðnum 10-15 árum getur nýst í öðrum heimshlutum. John Kerry áréttaði í ræðu sinni í gær að Bandaríkin yrðu að gera sig mun meira gildandi í málefnum norðurslóða.

„Það skipti miklu máli í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og gæti eflt vitund almennings um hvað væri í húfi.“ Hann rakti niðurstöður ýmissa nýrra vísindarannsókna „sem sýna að aðeins fáein ár eru til stefnu ef mannkyni á að takast að koma í veg fyrir hrikalegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Það væri stærsta verkefni samtímans,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert