Þorsteinn vill ekki tjá sig

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, vill ekkert tjá sig um húsleit sem gerð var í höfuðstöðvum fyrirtækisins á Akureyri og á skrifstofu þess í Reykjavík í dag. „Einhvern tíma kemur hún, já,“ sagði Þorsteinn þegar hann spurður hvort yfirlýsing kæmi frá fyrirtækinu.

Fulltrúi fréttavefjar Morgunblaðsins var fyrir utan höfuðstöðvar Samherja á Akureyri um klukkan hálffimm nú síðdegis þegar Þorsteinn Már kom þangað.

Húsleitin var unnin í samstarfi gjaldeyriseftirlits Seðlabankans og embættis sérstaks saksóknara. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum er um rannsókn að ræða á því hvort Samherji hafi brotið lög um gjaldeyrishöftin. Staðfestir bankinn að meðal gagna í málinu sé ábending sem bankinn fékk frá starfsmanni Kastljóss en fleiri gögn liggja að baki rannsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert