Styður frumvarpið ekki óbreytt

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sagði á Alþingi í kvöld að hann gæti ekki stutt sjávarútvegsfrumvarp ríkisstjórnarinnar óbreytt. Hann sagðist telja að frumvarpið gengi alltof langt í átt til markaðssjónarmiða og réttur byggðanna væri ekki nægjanlega tryggður. Hann sagðist hins vegar aðspurður styðja ríkisstjórnina áfram til allra góðra verka.

Með orðum sínum var Jón að bregðast við fyrirspurn frá Ólöfu Nordal, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, sem spurði Jón annars vegar hvort hann teldi að sjónarmið Samfylkingarinnar hefðu orðið ofan á þegar frumvarpið var samið og hins vegar hvort hann styddi frumvarpið eins og það stæði.

Áður hafði Jón meðal annars sagt að togstreita hefði verið á milli Samfylkingarinnar og VG í sjávarútvegsmálum. Samfylkingin hefði lagt áherslu á markaðslausnir eins og uppboð á aflaheimildum á meðan VG hefði lagt meiri áherslu á byggðasjónarmið og að styrkja byggð í landinu.

Ólöf spurði Jón ennfremur hvort hann styddi ríkisstjórnina áfram í ljósi frumvarpsins og svaraði Jón því til að þó að skiptar skoðanir væru um ýmislegt á milli ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli væri enn lengra á milli sjónarmiða hans og Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert