„Þetta er alger aumingjaskapur“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðustóli á Alþingi.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðustóli á Alþingi. mbl.is/Kristinn

„Ég held að það sé kominn tími til þess að þeir stjórnarliðar sem hér eru með frammíköll og skæting komi hér upp og tali hreint út um það hvort að þeir vilja að tillögur stjórnlagaráðsins verði hin nýja íslenska stjórnarskrá,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag.

Sagði hann að það væri „helber lygi“ að sjálfstæðismenn hefðu ekki viljað eiga samráð við fólkið í landinu um nýja stjórnarskrá eins og þeir hefðu verið sakaðir um. Hann lagði áherslu á að þjóðaratkvæðið sem ætlunin væri að halda í sumar um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá yrði í raun ráðgefandi skoðanakönnun um óklárað mál.

Bjarni hafnaði ásökunum um að Sjálfstæðisflokkurinn stæði fyrir málþófi á Alþingi um málið og að ásakanir um slíkt væru vegna þess að stjórnarliðar treystu sér ekki til þess að taka efnislega umræðu um málið. Hvatti hann stjórnarþingmenn til þess að koma upp í ræðustól og upplýsa um afstöðu sína til málsins.

„Ég kalla eftir því að menn taki afstöðu til grundvallarþátta í þessari stjórnarskrá eins og hún liggur hér fyrir í drögum. Komi hér upp og sýni einhvern kjark í þessari umræðu. Séu ekki með þetta tuð um málþóf og einhver formsatriði. Þetta er aumingjaskapur! Þetta er alger aumingjaskapur,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.

Umræður hafa nú staðið í allan dag um þingsályktunartillöguna um þjóðaratkvæði og hafa stjórnarliðar lítið tekið þátt í umræðunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert