Hiti í þingsal meðal þingmanna

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins situr undir þungum sökum á Alþingi nú.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins situr undir þungum sökum á Alþingi nú. Heiðar Kristjánsson

Ásakanir ganga nú á víxl milli þingmanna á Alþingi og er hiti í þingsalnum. Þingflokksformenn stjórnarinnar reyndu að ná samkomulagi um að ljúka umræðunni svo greiða mætti atkvæði.

Magnús Orri Schram, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hefðu reynt að ná samkomulagi um að umræðunni geti lokið nú á tólfta tímanum. Hann sagði þingflokk Framsóknarflokksins hafa verið reiðubúinn að gera samkomulag og þakkaði fyrir það en sagði þingflokk Sjálfstæðisflokksins hafa staðið gegn samkomulagi um að málið fengi fram að ganga fyrir miðnætti.

Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks Vg, tók til máls og gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn harðlega fyrir framgöngu hans í málinu.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. tók til máls og bar af sér sakir og vísaði á bug ummælum stjórnarþingmanna um málþóf þingflokks Sjálfstæðisflokksins og minnti á 11 klukkutíma ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á sínum tíma þegar hún var óbreyttur þingmaður.

Álfheiður Ingadóttir gekk því næst í ræðustól og gagnrýndi þingflokk Sjálfstæðisflokksins og sagði að þingmönnum flokksins væri „svo mikið í mun að tala hér, tala málið í hel eina ferðina enn“. Hún hvatti þingflokkinn til að sjá sóma sinn í því að leyfa lýðræðislega kjörnum meirihluta á Alþingi að greiða atkvæði í málinu og sakaði Ragnheiði Elínu Árnadóttur um að stjórna öllu á Alþingi.

„Þetta er eitt mikilvægasta mál sem kallað hefur verið eftir á þessu kjörtímabili,“ sagði Ólína Þorvarðardóttir í umræðunum. Hún sakaði sjálfstæðismenn um að þumbast og þvælast fyrir. Þeir ræddu málin ekki á málefnalegum forsendum, ekki á grundvelli rökræðunnar heldur með fundartæknilegu þvaðri.

Nú fara þingmenn í röð í ræðustól Alþingis til að ræða fundarstjórn forseta og eru frammíköll algeng í salnum og þingforseti biður þingmenn ítrekað um að stilla sig og gefa ræðumönnum hljóð.

Ólína Þorvarðardóttir sakaði þingflokk sjálfstæðismanna um fundartæknilegt þvaður.
Ólína Þorvarðardóttir sakaði þingflokk sjálfstæðismanna um fundartæknilegt þvaður. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert