Taka 275 km krók á veturna

Frá Ísafirði. Í veðri sem þessu þarf eflaust að aka …
Frá Ísafirði. Í veðri sem þessu þarf eflaust að aka lengri leiðina á milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Halldór Sveinbjörnsson

Á höfuðborgarsvæðinu og víðar hefur snjórinn vikið fyrir vorinu og ökumenn eru ekki lengur í vandræðum með að komast leiðar sinnar. Það sama er ekki að segja um þá sem ætla að aka vegina á Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði á Vestfjörðum. Þeir eru lokaðir enda yfir 10 metra há snjólög og hefur snjórinn ekki mælst meiri í mörg ár.

Miðað við árstímann er ekki óvenjulegt að vegirnir séu lokaðir því þeir eru venjulega ekki opnaðir fyrr en í apríl. Það getur hinsvegar teygst fram í maí, allt eftir snjólögunum. „Þetta eru gamlir vegir og erfiðir og er í raun ekki hægt að halda þeim opnum yfir veturinn með hefðbundnum leiðum. Þetta eru í raun bara sumarvegir,“ segir Geir Sigurðsson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði, og bætir við að þeir séu mjög óöruggir. „Bæði er snjóflóðahætta viðvarandi á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði er mjög löng. Ef hún er opnuð og það er t.d. skafrenningur þá er hún mjög fljót að lokast.“

Lokun veganna hefur mikil áhrif á þá sem þurfa að keyra á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar. Séu þeir opnir er leiðin u.þ.b. 180 km en ef ekki þá er óhætt að segja að það þurfi að taka mjög stóran krók. Lengist leiðin þá um 275 km og mælist 455 km. Þá þarf að aka, sé keyrt frá Ísafirði, til Hólmavíkur, yfir veginn um Arnkötludal og síðan sem leið liggur um Vestfjarðaveg til Patreksfjarðar.

Að sögn Geirs er eina lausnin á þessu jarðgöng á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, sem leysi Hrafnseyrarheiði af, og síðan endurbyggja veginn um Dynjandisheiði. Hann segir að búið sé að skoða með byggingu ganga, sem myndu þá nefnast Dýrafjarðargöng. „En hvar þau verða í röðinni og hvenær ráðist verður í þau veit ég ekki, öllum slíkum áætlunum hefur verið frestað eftir hrun.“ Þá sé því miður ekki á áætlun að bæta veginn um Dynjandisheiði.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert