„Hver hlær núna?“

Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu.
Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu.

Breski þingmaðurinn Daniel Hannan, sem situr á Evrópuþinginu fyrir breska Íhaldsflokkinn, sagði í ræðu í þinginu í vikunni að frekar ljót þórðargleði hefði gert vart við sig í þingsalnum í kjölfar hruns íslensku bankanna haustið 2008. Hann sagði í ræðunni að ýmsir þingmenn víða að úr Evrópu hefðu komið að máli við sig og hlakkað yfir óförum Íslendinga og sagt að svona færi þegar ríki vildu ekki ganga í Evrópusambandið.

„Hver hlær núna?“ spurði Hannan í ræðu sinni. Ísland hefði fellt gengi krónunnar, sem landið hefði getað vegna þess að það var ekki með evruna sem gjaldmiðil, og gert útflutning sinn þannig samkeppnishæfari sem hefði síðan skilað sér í auknum hagvexti sem væri nú litinn öfundaraugum af þeim evruríkjum sem ættu í efnahagserfiðleikum. Íslendingar hefðu líka forðast þau mistök að taka á sig ábyrgðina á skuldbindingum einkabanka.

Hannan vitnaði síðan til nýjustu skoðanakönnunar á Íslandi sem sýndi að 67% Íslendinga vildu ekki ganga í Evrópusambandið. Ástæðan væri sú sagði hann að þeir vissu hvað innganga hefði í för með sér. Auðlindir þeirra yrðu arðrændar, fiskimiðin þeirra tæmd og lýðræði þeirra eyðilagt. Íslenska þingið yrði aðeins að héraðsþingi.

Hann sagði Íslendinga vera klára þjóð sem hefði herst við þá erfiðleika sem kynslóðir þeirra hefðu gengið í gegnum og þeir vissu betur en að kasta á glæ frelsi sínu.

Myndband með ræðu Hannans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert