Vildu Vigdísi, en fengu Davíð

Tíu þúsund króna seðill með mynd af Davíð Oddssyni, ritstjóra …
Tíu þúsund króna seðill með mynd af Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi Seðlabankastjóra. mbl.is

Fjölmargir lesendur mbl.is tóku í dag þátt í að velja andlit á nýja tíu þúsund króna seðilinn sem Seðlabankinn hyggst gefa út. Í samkeppninni sem efnt var til á vefnum í morgun gátu lesendur valið á milli nokkurra þjóðþekktra Íslendinga til að prýða peningaseðilinn.

En þar sem samkeppnin var aprílgabb var sama hvern lesendur völdu; þeir fengu alltaf þau skilaboð að þeir hefðu valið Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóra og nú ritstjóra Morgunblaðsins.

Við þökkum lesendum okkar fyrir að taka þátt í þessu með okkur og kosningin virðist hafa vakið áhuga margra, en rúmlega 26.000 manns höfðu tekið þátt í henni á tíunda tímanum í kvöld.

Margir kusu oftar en einu sinni, sá sem kaus oftast gaf Vigdísi Finnbogadóttur atkvæði sitt tíu sinnum á tveimur mínútum.

Þegar atkvæðin voru talin skömmu fyrir klukkan tíu í kvöld kom í ljós að Vigdís fékk flest atkvæði og í öðru sæti varð Halldór Laxness.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir var í þriðja sæti og þar á eftir fylgdu Jónas Hallgrímsson, Davíð Oddsson, Steinn Steinarr, Ólafur Ragnar Grímsson og Hannes Hafstein.

Frétt mbl.is : Hver á að prýða peningaseðilinn?

Lesendum mbl.is bauðst í dag að kjósa um hvaða þjóðþekkti …
Lesendum mbl.is bauðst í dag að kjósa um hvaða þjóðþekkti Íslendingur ætti að prýða nýja tíu þúsund króna seðilinn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert