Samtökin '78: Árás á transmann sorgleg

Samtökin '78 segja það sorglegt að nóttina eftir að lagt var fram á Alþingi frumvarp um stöðu transfólks á Íslandi skuli ungur transmaður vera laminn á bar í Reykjavík fyrir það eitt að vera sá sem hann er. „Þetta atvik sýnir okkur hversu gríðarlega mikilvægt það er að Alþingi samþykki fyrirliggjandi frumvarp og bæti inní stjórnarskrá og/eða refsilöggjöfina ákvæði til verndar transfólki með kynvitund sem ekki samræmist þeirra líffræðilega kyni,“ segir í yfirlýsingu frá Samtökunum.

Stjórn Samtakanna skrifaði síðasta sumar erindi til Stjórnlagaráðs samhljóða erindi Q – félags hinsegin stúdenta um að bæta orðinu kynvitund inn í upptalningu á mismununarbreytum í jafnræðisreglu nýrrar stjórnarskrár.

„Ef þessi tillaga að nýrri stjórnarskrá verður samþykkt er þar inni bann við mismunun vegna kynhneigðar, sem er ákveðinn sigur, en með því að bæta kynvitund inn í upptalninguna væri komin inn vernd fyrir transfólk einnig. Orðið kynhneigð vísar til þess hverja við elskum og orðið kynvitund til þess hvoru kyninu við upplifum okkur sjálf tilheyra. Stjórnlagaráð felldi naumlega tillöguna um að bæta kynvitund við upptalninguna og því ákvað stjórn S’78, þegar þess gafst færi, að senda inn breytingartillögu til Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem við lögðum til að Alþingi gengi lengra en Stjórnlagaráð var tilbúið að gera. Formaður og varaformaður fóru á fund nefndarinnar í desember þar sem útskýrður var fyrir nefndarmönnum munurinn á merkingu þessara tveggja orða, kynhneigð og kynvitund, og af hverju við teljum mikilvægt að þau séu bæði inni í upptalningu jafnræðisreglunnar. Það er greinilegt að það bíður mikið starf við að uppfræða almenning hér á landi um málefni transfólks því það er vitað að fordómar byggja fyrst og fremst á vanþekkingu og hatursglæpir eins og sá sem er útgangspunktur þessara skrifa byggjast á þessum fordómum og hræðslu við þá sem eru öðruvísi en maður sjálfur.

Samtökin ‘78 kalla eftir umburðarlyndi og skilningi fólks á milli. Við erum ekki öll eins og þjóðfélagið væri miklu minna virði ef við værum öll steypt í sama mót. Fögnum fjölbreytni og styðjum transfólk í baráttu sinni og OKKAR fyrir mannlegri reisn og sjálfsögðum mannréttindum. Um leið skorum við á Alþingi að klára lagaúrbætur til handa transfólki þannig að sómi sé af og við getum stolt sagt við hvern sem heyra vill að á Íslandi njóti allir virðingar og mannréttinda,“ segir í yfirlýsingu Samtakanna '78.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert