Óvissuástand við Öskjuvatn

Öskjuvatn 27. mars. Enginn ís er nú á vatninu. Myndina …
Öskjuvatn 27. mars. Enginn ís er nú á vatninu. Myndina tók Hreinn Skagfjörð Pálsson. Af vef Vatnajökulsþjóðgarðs

Farið verður í vísindaleiðangur að Öskju eftir páska til að lesa af GPS-mælum til að kanna hvort einhverjar hreyfingar hafi verið á landinu. Þá verða settir hitamælar út í vatnið. Augljós varmaaukning er í Öskjuvatni og óvissuástand ríkir á svæðinu. Vatnið er nú íslaust sem er mjög óvenjulegt miðað við árstíma. Önnur vötn á hálendinu eru enn ísilögð og því þykir ástæða til að fylgjast vel með vatninu. Þekkt er að aukinn jarðhiti á svæðinu er vísbending um eldgos en það gerðist bæði árin 1875 og 1961 þegar síðast gaus í Öskju.

Fulltrúar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, almannavarna Ríkislögreglustjóra og Veðurstofu Íslands hittust í dag og réðu ráðum sínum í kjölfar fregna af ísleysi Öskjuvatns. Í kjölfarið var ákveðið að fara í leiðangur að Öskju eftir páska. Í ferðinni munu vísindamenn lesa punkta af GPS-mælum til að sjá hvort einhverjar breytingar hafi orðið á landinu. Slíkt er gert í ágúst ár hvert en verður nú gert vegna breyttra aðstæðna. Þá verða m.a. bornar saman mælingar frá því í ágúst í fyrra og nú.

„Það verða einnig settir hitamælar út í vatnið til að átta sig á hvort og hvaða einhverjar breytingar séu á vatninu,“ segir Björn Oddsson, jarðfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Engir slíkir mælar eru nú á Öskjuvatni. „Í lok mánaðarins ættum við að vera komin með einhverja mynd á það sem þarna er að gerast.“

Nákvæmari mælingar nauðsynlegar

Björn segir augljóst að varmaaukning sé í vatninu. „Og þessi aukni varmi kemur einhvers staðar frá. Það gæti verið frá einhverju nýju kvikuinnskoti undir yfirborði jarðar en slíku fylgir skjálftavirkni og hún hefur hvergi komið fram.“

Björn segir að ýmis gögn séu til um eldvirknina á þessu svæði í gegnum tíðina. „Það sem við vitum er að aukinn jarðhiti getur verið fyriboði eldgoss, það gerðist árin 1875 og 1961. Þannig að við getum ekki litið fram hjá því núna, það er þarna aukinn jarðhiti. En nákvæmlega hvað er að gerast þarna er ómögulegt að segja til um nema með nákvæmari mælingum.“

Ákveðið var í dag að vara við ferðum að Öskjuvatni og Víti. Björn segir að slíkar viðvaranir beri að taka alvarlega. Gös geti t.d. safnast í lægðir og verið stórhættuleg.

Ófært er á norðurhálendinu og vegir lokaðir að Öskju. Þá er bannað að vera á vélknúnum ökutækjum innan öskjunnar allan ársins hring vegna náttúruverndar.

„Það er alls ekki að ástæðulausu sem gefin er út svona viðvörun, þarna er óvissuástand sem þýðir einfaldlega að við verðum að afla frekari upplýsinga til að geta sagt fyrir um stöðuna,“ segir Björn.

Öskjuvatn myndaðist í gríðarstóru gosi árið 1875

Askja er eldstöð norðan Vatnajökuls, í Ódáðahrauni á hálendi Íslands. Umhverfis Öskju eru Dyngjufjöll, en skarð er í gegnum fjöllin til austurs, sem kallast Öskjuop.

Askja var nánast óþekkt eldstöð þangað til gífurlegt eldgos hófst þar 29. mars 1875. Gos þetta nefnist Öskjugosið 1875, eða Dyngjufjallagos. Öskufall frá gosinu hafði mikil áhrif á Austurlandi og átti sinn þátt í því að stór hópur fólks flutti þaðan til Vesturheims. Eftir að gosinu lauk varð mikið landsig í Öskju, og myndaðist þá Öskjuvatn. Á austurbakka Öskjuvatns er gígurinn Víti, og er talið að askan í gosinu 1875 hafi komið þar upp.

Í tengslum við Öskjugosið 1875 varð einnig hraungos í Sveinagjá á Mývatnsöræfum, og rann þá Nýjahraun.

Askja gaus síðast árið 1961, segir á vefnum Wikipedia. Fjallað var ítarlega um gosið á síðum Morgunblaðsins en það hófst 26. október og var hraungos.

Forsíða Morgunblaðsins 28. október árið 1961, tveimur dögum eftir að …
Forsíða Morgunblaðsins 28. október árið 1961, tveimur dögum eftir að gosið hófst.
Askja er friðlýst, en undir henni er mikið háhitasvæði. Öskjuvatn …
Askja er friðlýst, en undir henni er mikið háhitasvæði. Öskjuvatn myndaðist árið 1875. mbl.is/Rax
Ferðamenn við Víti að sumartíma.
Ferðamenn við Víti að sumartíma. mbl.is/Rax
MODIS gervihnattamynd frá NASA 02.04.2012 kl. 13:40, svokölluð náttúruleg litmynd. …
MODIS gervihnattamynd frá NASA 02.04.2012 kl. 13:40, svokölluð náttúruleg litmynd. Öskjuvatn sker sig úr á miðri mynd enda íslaust óvenjusnemma. Af vef Veðurstofu Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert