Unnið að viðgerð á dæluskipinu

Bæði Skandia og Sóley voru að dýpa í Landeyjahöfn fyrr …
Bæði Skandia og Sóley voru að dýpa í Landeyjahöfn fyrr í vikunni.

Vonast er eftir að takist að koma sanddæluskipinu Skandiu af stað fljótlega, en alvarleg bilun varð í skipinu í gær. Nú er unnið að bráðabirgðaviðgerð í Vestmannaeyjahöfn. Siglingastofnun vonast eftir að hægt verði að nota Landeyjahöfn fljótlega.

Skandia og Sóley hafa verið við sanddælingu í og við Landeyjahöfn síðustu daga. Sóley er núna farin af svæðinu en vonast hafði verið eftir að Skandia myndi ná að klára að dýpka það sem eftir var. Í gær bilaði hins vegar bógskrúfa í skipinu.

Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Siglingastofnunar, segir að bilunin sé alvarleg, en vonast sé eftir að takist að gera við til bráðabirgða á tiltölulega skömmum tíma. Stefnt sé að því að skipið vinni að dýpkun hafnarinnar á morgun og föstudag.

Þórhildur vill ekki fullyrða hvenær Herjólfur geti farið að sigla í Landeyjahöfn, en vonar að það verði fljótlega. Dýpi í höfninni hafi verið mælt í gær og niðurstöðurnar bendi til að ekki vanti mikið upp á að hægt sé að nota höfnina.

Veðurútlit fyrir helgina er ekki gott.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert