Niðurstöður Deloitte ekki keyptar

Loðnuveiði við Vestmannaeyjar.
Loðnuveiði við Vestmannaeyjar. mbl.is/RAX

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte stendur við þá niðurstöðu sína að áformuð veiðigjöld ríkisstjórnarinnar jafngildi ofurskattlagningu hagnaðar. Þorvarður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Deloitte, vísar á bug aðdróttunum um að niðurstaða fyrirtækisins sé „keypt“ af útvegsmönnum og því ekki marktæk.

Þorvarður bendir á að stjórnvöld, sem gagnrýni nú mjög mat annarra á áhrifum lagabreytinga sem þau leggja til, hafi sjálf enga útreikninga birt af neinu tagi um áhrif á afleiðingar breytinganna. 

Landssamband íslenskra útvegsmanna fékk Deloitte til að áætla áhrif fyrirhugaðra veiðigjalda á útgerðir aftur í tímann. Niðurstaðan var m.a. sú að mörg fyrirtækin myndu ekki lengur ráða við afborganir af lánum. Skattlagningin hefði samkvæmt útreikningum Deloitte verið meiri en hagnaður greinarinnar, eða rétt um 105%.

Steingrímur J. Sigfússon sjávaraútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur látið hafa eftir sér í kjölfarið að hann efist um útreikninga Deloitte, talað um hæpnar eða óljósar forsendur og jafnvel að Deloitte hafi „gleymt“ að gera ráð fyrir áhrifum tekjuskatts í útreikningum sínum. Í yfirlýsingu frá Deloitte í dag segir Þorvarður Gunnarsson að Deloitte standi við niðurstöður sínar að öllu leyti og sé tilbúið að fara yfir málið með ráðherra og ráðgjöfum hans. 

„Látið er að því liggja, t.d. í skrifum aðstoðarmanns ráðherra í Fréttablaðinu á skírdag, að niðurstaða Deloitte sé „keypt“ af útvegsmönnum og því ekki marktæk. Slíku vísum við á bug. Deloitte er alþjóðlegt endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtæki og niðurstöður þess fást ekki keyptar,“ segir í yfirlýsingunni.

Þorvarður Gunnarsson framkvæmdastjóri Deloitte
Þorvarður Gunnarsson framkvæmdastjóri Deloitte mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert