Getum ekki beðið eftir ESB

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson Kristinn Ingvarsson

Skiptar skoðanir eru um það innan þingflokks VG hversu langt aðildarviðræðurnar við ESB eigi að vera komnar fyrir næstu þingkosningar. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ítrekar þá skoðun sína að ljúka eigi viðræðunum fyrir næstu kosningar. Ekki sé hægt að bíða eftir því að ný sjávarútvegsstefna ESB líti dagsins ljós, líklega árið 2014, eins og Stefán Haukur Jóhannesson, formaður samninganefndar Íslands í aðildarviðræðunum, telur nú.

„Þótt Evrópusambandið segist ætla að smíða nýja sjávarútvegsstefnu á næstu misserum þá er ekkert gefið í þeim efnum. Ef til vill tekur þessi smíði miklu lengri tíma og ófært er fyrir okkur að bíða í óvissunni. Þetta er framtíðarmúsik sem sér ekki fyrir endann á hver niðurstaðan verður,“ segir Ögmundur en sem kunnugt er hefur Árni Þór Sigurðsson, flokksbróðir Ögmundar og formaður utanríkismálanefndar, staðfest að makríldeilan verði hugsanlega til tafar þegar aðildarviðræðurnar eru annars vegar.

Íslendingar stjórni dagsetningunum

„Við eigum ekki að láta reka á reiðanum. Viðfangsefnin eru augljós, aðkoma okkar að deilistofnum, fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi og fleira. Við eigum að setja dagsetningar niður sjálf og segja okkar samningafólki fyrir um hvaða tímamörk við setjum okkur til að fá niðurstöður í þau mál sem augljóslega er ágreningur um.

Sumir vilja gera þetta flókið og óyfirstíganlegt en svo þarf ekki að vera. Ef við tökum ekki afdráttarlausa afstöðu varðandi tímamörk mun Evrópusambandið stýra samningaferlinu inn í dagsetningar sem það telur sér hagstæðar. Í ljósi skoðanakannana vill sambandið augljóslega draga viðræður á langinn,“ segir Ögmundur og bendir á að það séu ekki hagsmunir Íslands að viðræður, sem sumir töldu að myndu taka innan við ár frá því viðræðurnar hófust í júlí 2010, dragist enn á langinn. 

Meðal þeirra var Baldur Þórhallsson, Jean Monnet-prófessor í Evrópufræðum við Háskóla Íslands, sem skrifaði meðal annars 23. apríl 2009: „Hægt er að hefja undirbúning að upptöku evru samhliða samningaviðræðum um aðild að ESB. Enginn annar kostur stendur til boða varðandi gjaldmiðlaskipti. Það hefur margoft komið skýrt fram í máli forystumanna ESB. Þeir eru hins vegar tilbúnir að semja við okkur um inngöngu á 9 til 12 mánuðum. Það þýðir að hægt er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning á næsta ári. Þá getur hver og einn metið kosti og galla ESB aðildar,“ skrifaði Baldur á vef Samfylkingarinnar.

Ekki hagsmunir Íslands

Ögmundur segir íslenskt samfélag klofið vegna umsóknarinnar.

„Við hljótum hins vegar að horfa til þess að það eru ekki okkar hagsmunir að standa í þessu viðræðuþjarki árum saman. Þjarkið skiptir þjóðinni í stríðandi fylkingar og er því slítandi fyrir samfélagið og gríðarlega kostnaðarsamt.

Þannig að hvernig sem á málið er litið þurfum við að fá niðurstöður sem fyrst svo við getum afgreitt þetta mál út af borðinu. Það eru hagsmunir Íslands að fá lyktir í viðræðurnar með efnislegum niðurstöðum hið allra fyrsta," segir Ögmundur sem hafnar þeim möguleika að Ísland bíði til ársins 2014 þegar ný sjávarútvegsstefna liggi hugsanlega fyrir. „Það tel ég alveg fráleitt,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert