„Stórbrotinn heiður“

Einar Már Guðmundsson rithöfundur.
Einar Már Guðmundsson rithöfundur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Már Guðmundsson tók í kvöld við Norrænu bókmenntaverðlaunum Sænsku akademíunnar. Verðlaunin, sem í daglegu tali eru stundum kölluð Litli Nóbelinn, hafa verið veitt árlega frá 1986. Einar segir verðlaunin stórbrotinn heiður fyrir sig.

Verðlaunin þykja einhver mesti heiður sem norrænum rithöfundi getur hlotnast og eru veitt fyrir höfundarverk. Einar Már Guðmundsson er þriðji Íslendingurinn sem hlýtur verðlaunin, Thor Vilhjálmsson fékk þau árið 1992 og Guðbergur Bergsson árið 2004.

Meðal höfunda sem hafa fengið Norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar síðustu ár eru Ernst Håkon Jahr, Per Olov Enquist, Kjell Askildsen og Sven-Eric Liedman. Einar Már hefur hlotið ýmiss konar verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, þar á meðal Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1995, norsku Bjørnson-verðlaunin og Karen Blixen-heiðursverðlaunin. Og nú bætast við þessi mjög svo virtu verðlaun.

„Því verður ekki neitað að þetta er stórbrotinn heiður,“ sagði Einar Már í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins þegar hann var spurður um viðbrögð við þessari viðurkenningu. „Verðlaunin setja verk mín í ákveðið samhengi sem þau voru kannski í, en þarna eiga sennilega við hin ágætu orð Laxness að upphefðin kemur að utan, þótt ég hafi reyndar stundum snúið þessu við og sagt að upphefðin komi að innan.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert