Hjörleifur með efasemdir

Hjörleifur Guttormsson, fyrrum ráðherra.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrum ráðherra. mbl.is

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra, segir að áður en hægt verði að taka ákvörðun um lagningu sæstrengs til Evrópu verði að liggja fyrir hversu mikil virkjanlega orka sé í landinu.

Hjörleifur sagði þetta í fyrirspurn á ársfundi Landsvirkjunar. Hann spurði Hörð Arnarsson, forstjóra Landsvirkjunar, hversu mikla orku væri fyrirhugað að selja um sæstreng. Hann benti á að stóriðjufyrirtækin hér á landi hefðu sagt að þau þyrftu meiri orku í framtíðinni. Þá sagði Hjörleifur að hann efaðist um að jarðvarmaorkan á Íslandi væri eins mikil og talað hefði verið um og velti upp þeirri spurningu hvort virkjun jarðvarmans væri sjálfbær.

Hörður sagði fyrirhugað að jarðstrengurinn gæti flutt út 700 MW. Þessir strengir hefðu verið að stækka og nýjasti strengurinn sem lagður hefði verið gæti flutt 1200 MW. Hörður sagðist gera ráð fyrir að eftirspurn eftir orku frá Íslandi yrði alltaf meiri en framboðið.

Hörður sagði að það væri enginn vafi á að virkjun jarðvarmans væri sjálfbær. Hins vegar þyrfti að fara varlega í að nýta svæðin og passa upp á að taka ekki meiri varma úr þeim en þau þoldu. Hann sagði að í rammaáætlun fælist mikilvæg stefnumörkun. Þar væri rammi settur um þá orku sem heimilt yrði að virkja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert