Ræddu viðbrögð Íslands

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar.
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, segir að samstaða hafi verið á fundi utanríkismálanefndar í kvöld um að í viðbrögðum Íslands við ákvörðun ESB um meðalgöngu í Icesave-málinu yrðu að vera á þann veg að þau styrktu stöðu Íslands í dómsmálinu.

Fundurinn stóð á fjórða klukkutíma, en á honum var farið ítarlega yfir stöðu Icesave-málsins sem nú er fyrir EFTA-dómstólnum. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og málflutningsteymið sem rekur málið fyrir hönd Íslands fyrir EFTA-dómstólnum voru á fundinum.

„Við ræddum sérstaklega hvernig þessari ósk EFTA-dómstólsins um umsögn varðandi þessa meðalgöngu framkvæmdastjórnar ESB yrði svarað og hvaða rök væru þar á bak við. Ég get á þessu stigi ekki farið nánar út í hvaða sjónarmið þar koma fram, önnur en þau að það sem menn leggja mikið kapp á er að við erum í þessu dómsmáli og það eru allir einhuga um það að meginverkefnið er að standa sig eins vel í því og kostur er og vinna málið. Við viljum að allt sem gert er í þessu sambandi hjálpi til í því efni.“

Árni Þór sagði að viðbrögð íslenskrar stjórnvalda yrði áfram rædd í nefndinni í samráði við utanríkisráðherra.

Margir stjórnmálamenn hafa lýst því yfir í dag og í gær að þessi ákvörðun ESB kallaði á endurskoðun á ákvörðun Íslands að sækja um aðild að ESB. Árni Þór sagði að menn yrðu að átta sig á að þetta mál snerist annars vegar um lagatækni og hvernig við gætum rekið málið fyrir dómstólnum og hins vegar um pólitík.

„Menn kunna að hafa mismunandi viðhorf við því hvernig eigi að bregðast við hinni pólitísku hlið málsins. Það vill auðvitað enginn gera neitt sem skaðar málflutning og málstað Íslendinga í málinu. Þar reiðum við okkur auðvitað mjög mikið á vinnu málflutningsteymisins, bæði þess íslenska og aðalmálflytjandans, Tim Ward. Svo getum við rætt í okkar hópi um hina pólitísku hlið og það verður væntanlega gert.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert