Auðlindin afhent á silfurfati

Grímur Atlason, fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík.
Grímur Atlason, fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík. mbl.is/Steinar H

Grímur Atlason, fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík, segir aflaverðmæti sjávarútvegsfyrirtækja ekki skila sér nema að mjög litlu leyti til samfélagsins. Þess í stað streyma peningarnir frá sveitarfélaginu og beint í vasa örfárra manna. Afskriftir sjávarútvegsfyrirtækja og eigenda þeirra hlaupa á tugmilljörðum.

Kemur þetta fram í pistli hans á samskiptavefnum Facebook.

Fyrir skömmu samþykkti bæjarráð Bolungarvíkur samhljóða ályktun þar sem mótmælt er harðlega „þeirri ósanngjörnu mismunun fyrirtækja, einstaklinga í útgerð og sveitarfélaga sem fram kemur í frumvarpi til laga um veiðigjöld,“ líkt og segir í ályktun bæjarráðs Bolungarvíkur.

Í fyrri frétt mbl.is um málið kemur m.a. fram að slíkt veiðigjald hefði kostað útgerðina í Bolungarvík 454 milljónir króna.

Auðlind á silfurfati

Þá segir Grímur frumvarp ríkisstjórnarinnar vera arfaslappt en alvarlegast sé þó að „frumvarpið færir útgerðarmönnum í rauninni auðlindina á silfurfati og staðfestir þar með óréttlætið með lögum,“ segir Grímur í pistli sínum.

Segir hann að árið 2011 hafi um 13.000 tonnum af fiski verið landað í Bolungarvík. Verðmæti þess afla, óunninn, er um 3 til 3.5 milljarðar króna. Eftir vinnslu eykst verðmætið í um 8 milljarða króna. Veiðarnar hafa verið með svipuðu móti undanfarna áratugi þó svo að árið í fyrra hafi verið með besta móti. 

„Peningarnir hreinlega flæða um Brjótinn. Þrátt fyrir þetta hefur ekki verið malbikuð gata í Bolungarvík um langt árabil. Viðhald félagsheimilisins var bæjarsjóði nær ofviða og skuldir hafa sligað sveitarfélagið svo lengi sem elstu menn muna. Peningarnir fara rakleitt í gegnum gatið á fjallinu og þaðan í vasa örfárra,“ segir Grímur í pistli sínum.

Umdeildar framkvæmdir

Grímur gagnrýnir einnig ákveðnar framkvæmdir bæjarfélagsins í þágu útgerðarinnar en 100 milljónir króna fóru í að dýpka höfnina svo loðnubræðsla gæti haldið áfram. „Allir vissu að það var óraunhæf framkvæmd enda kom á daginn að ekkert loðnuskip hefur landað frá því að þetta var gert,“ en meira en áratugur er liðinn frá dýpkun hafnarinnar.

Á sama tíma ákvað bæjarsjóður að byggja vatnsveitu fyrir rækjuvinnsluna í bænum. Sú framkvæmd kostaði tugi milljóna króna og mun aldrei koma til með að borga sig. „Rækjuvinnslan lék klassískan leik sambærilegra fyrirtækja: Rekstrinum skipt í nokkur félög hvar eitt safnaði skuldum á meðan eigendurnir tryggðu afkomu sína í öðrum félögum,“ segir Grímur og bætir við að engin rækju- eða loðnuvinnsla sé nú í Bolungarvík. Einungis skuldir og tómir kassar.

Gríðarlegar afskriftir

Segir hann einnig fjölda sjómanna hafa selt kvóta og orðið milljóna- og jafnvel milljarðamæringar. „Þeir innleystu ósýnilegan hagnað og settu í óskyldan rekstur. Sumir þessara aðila héldu áfram útgerð og léku þann leik að stofna mörg félög hvar peningarnir flæddu en skuldirnar hlóðust jafnframt upp,“ segir Grímur og bætir við að afskriftir þessara félaga eftir hrun séu gríðarlegar.

Þá segir Grímur það ekki úr vegi að bæjarráð Bolungarvíkur velti því fyrir sér af hverju átta milljarða árlegt aflaverðmæti virðist ekki, nema að litlu leyti, enda í vösum þeirra sem veiða og verka aflann, leggja til og viðhalda höfninni hvar aflanum er landað.

„Það er undarlegt að bæjarráðið verji kerfi sem er skrúfað þannig saman að holurnar í götunum stækka, byggingar grotna niður og aflaheimildirnar verði hugsanlega allar seldar Samherja, Brimi eða Ísfélaginu á morgun eða hinn,“ segir Grímur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert