Plastmál Jóhönnu slegið hæstbjóðanda

Málið, sem forsætisráðherra dreypti á og boðið var upp í …
Málið, sem forsætisráðherra dreypti á og boðið var upp í útvarpsþættinum Virkum morgnum í morgun.

Mikill dýrgripur bættist í safnkost Sjónlistamiðstöðvarinnar á Akureyri í morgun þegar safninu áskotnaðist plastmál sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra saup úr í morgun er hún var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 2.

Þáttastjórnendur Virkra morgna, þau Guðrún Dís Emilsdóttir og Andri Freyr Viðarsson buðu síðan málið upp í beinni útsendingu í þætti sínum í morgun og fóru leikar svo að Sjónlistamiðstöðin varð hlutskörpust og greiddi 105 þúsund krónur fyrir gripinn.

Hart var barist um plastmálið

„Þegar við mættum í stúdíóið í morgun fundum við þar fyrir plastmál sem Jóhanna Sigurðardóttir drakk úr í Morgunútvarpinu þegar hún var í viðtali þar. Þetta er virkilega fallegt mál, með rauðum varalit á barminum,“ segir Gunna Dís. „Við sáum strax að þetta var sannkallað listaverk og okkur datt í hug að bjóða það upp til styrktar Umhyggju, sem er félag til stuðnings langveikum börnum.“

Að sögn Gunnu Dísar upphófst síðan hröð og spennandi atburðarás þar sem bæði einstaklingar og fyrirtæki börðust um plastmálið. Sjónlistamiðstöðin hreppti síðan hnossið og til stendur að almenningur fái að berja gripinn augum. 

Almenningur fær að sjá safngripinn

Haraldur Ingi Haraldsson, verkefnastjóri Sjónlistamiðstöðvarinnar á Akureyri, segir að um merkan safngrip sé að ræða og sjá megi á honum ýmsa fleti. „Það gerist þarna atburður, sem er sá að forsætisráðherra mætir í viðtal og drekkur út bolla. Útvarpsmennirnir breyta honum síðan í allt annan atburð og úr því verður sjálfssprottið ferilverk. Það er það sem vakti áhuga okkar.“

Haraldur segir að listamenn á borð við Ólaf Elíasson og Magnús Pálsson hafi fengist við þessa listgrein. „Þannig að við erum í góðum hópi manna sem hugsar í þessa átt.“

„Okkur þótti gaman að taka þátt í þessu, þetta var virkilega spennandi uppboð og gaman að geta styrkt þetta málefni.“

Að sögn Haraldar er nú verið að ganga frá plastmálinu til sendingar norður. „Við gerum miklar kröfur til þess að gengið verði frá bollanum þannig að ekkert af verkinu spillist. Það þarf að pakka þessu ákaflega varlega inn.“

Fær almenningur að berja þennan dýrgrip augum? „Já, ég reikna með því að svo verði. Þetta er svo nýskeð að við þurfum að hugsa málið hvenær það verður, en það gæti orðið mjög fljótlega. Sérstaklega ef við verðum fyrir miklum þrýstingi og finnum fyrir eftirspurn, eins og ég á reyndar von á.“

Vefsíða Sjónlistamiðstöðvarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert