Ótrúlegt hvað hægt er að plata fólk

Tjón þeirra sem falla fyrir fjársvikunum hleypur yfirleitt á nokkur …
Tjón þeirra sem falla fyrir fjársvikunum hleypur yfirleitt á nokkur hundruð þúsund krónum. Mbl.is

„Það er með ólíkindum hvað hægt er að plata fólk og allar mögulegar leiðir notaðar, eins og hugmyndaflugið býður," segir Hafliði Þórðarson, lögreglufulltrúi hjá fjármunabrotadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. S.k. Nígeríusvindl eru viðverandi vandi, þótt þau taki reyndar á sig ýmsar myndir og séu fæst upprunnin í Nígeríu.

Flestir kannast við hin klassísku „Nígeríusvindl“ sem felast t.d. í því að reynt er að blekkja fólk til að láta fé af hendi til að leysa út óvæntan arf í útlöndum eða aðstoða pólitíska fanga með styrkjum gegn því að fá veglega endurgreiðslu síðar. Fjársvikin taka hinsvegar á sig ýmsar myndir og oftast er ómögulegt að rekja þau. Það sem þau eiga öll sameiginlegt er að reynt er með ýmsum leiðum að fá fólk til að láta af hendi pening.

Og Hafliði segir að það komi reglulega fyrir að fólk láti blekkjast, nógu oft til að svikin borgi sig. „Ef þú leggur netið út nógu víða er alltaf einn og einn sem festist í því. Þessi starfsemi er rekin á þeim 1-2% sem láta glepjast. Það er sáralítið, en dugar samt, því mönnum finnst þetta greinilega fyrirhafnarinnar virði." Upphæðirnar hlaupa yfirleitt á nokkur hundruð þúsund krónum. 

Innistæðulaus tékki endurgreiddur

Dæmin eru af ýmsum toga. Stundum hafa svindlararnir t.d. samband við fólk sem er að auglýsa varning á netinu og getur það verið allt frá bókum eða geisladiskum til bíla. Svindlarinn býður gott verð, t.d. 200.000 krónur, en svo kemur allt of hár tékki, upp á 500.000 krónur. Svindlarinn hefur þá samband aftur, afsakar mistökin og spyr hvort seljandinn geti ekki bara innleyst tékkann og sent sér svo mismuninn. „Það tekur tíma að kanna tékkann, svo kemur í ljós að hann er falsaður og engin innistæða á honum, en í millitíðinni ert þú búinn að senda „mismuninn“ út og situr í súpunni,“ segir Hafliði. 

Svindlararnir nýta sér þannig viðskiptavild annarra. „Þetta gengur allt út á að skapa traust og þeir ganga nokkuð langt í því. Það eru kannski búin að vera regluleg samskipti um viðskiptin, jafnvel hringt á milli og þannig skapa menn sér traust. Síðan er viðkomandi beðinn um að senda peninga, yfirleitt í gegnum Western Union. En ef fólk myndi nú bara lesa smáa letrið á sendiseðlum Western Union þá er varað við því að senda einhverjum sem þú þekkir ekki pening. Því þetta er ekki hefðbundin bankastarfsemi, heldur bara peningaflutningaþjónusta.“

Svindlað á leiguíbúðum í Bretlandi

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að svíkja fé út úr ferðaþjónustuaðilum. Ein útfærsla var sú að pöntuð var gisting fyrir stóran hóp á góðu verði og greitt fyrir með stolnu kreditkorti. Svo var bókunin afturkölluð vegna óvæntra forfalla og gistiþjónustan beðin um að endurgreiða upphæðina af eigin reikning, en halda eftir hluta sem þóknun fyrir ómakið. „Það er allt í lagi að taka við símgreiðslum á kreditkort, en það er þetta móment þegar á allt í einu að hætta við. Þá á að bakfæra færsluna, en alls ekki endurgreiða hana,“ segir Hafliði.

Fleiri dæmi má nefna. Einn maður keypti sér bíl í gegnum Ebay, sem staðsettur var í Bandaríkjunum, en greiðsluna átti hann að senda til Búlgaríu. Nokkur dæmi hafa komið upp tengd Bretlandi, þar sem fólk ætlar t.d. að leigja sér íbúð í London í gegnum smáauglýsingu og er beðið um að senda peninga til staðfestingar í gegnum Western Union. Hafliði segir að nánast útilokað sé að hafa uppi á svikurunum. „Um leið og peningurinn er farinn af stað þá er vonlaust að rekja hann. Lögregluyfirvöld úti eru náttúrulega að drukkna í þessu.

Ekkert ókeypis í þessum heimi

Dæmi séu um að blekkingavefurinn sé svo þétt ofinn að búið sé að setja upp svikasíður fyrir erlenda netbanka sem ekki séu til, en fórnarlömbin hafi fengið notendanafn og lykilorð til að skrá sig inn og staðfesta að upphæðin sé í bankareikningnum. „Menn hafa bitið á það agn. Fólk getur verið svolítið ginnkeypt, sérstaklega ef það er að fá gott verð eða díl sem lofar stórum fjárhæðum. En það fylgir alltaf sú saga að þú þurfir að leggja eitthvað út til að losa peningana, sem væri náttúrulega mjög undarlegt ef það væri eitthvað alvöru á bak við þetta,“ segir Hafliði. 

Full ástæða sé því til að minna fólk á að vera á varðbergi og nota brjóstvitið. „Þú bara sendir ekki peninga með Western Union á fólk sem þú þekkir ekki. Og ekki innleysa tékka frá fólki sem þú þekkir ekki. Það er grundvallaratriði. Það er ekkert ókeypis í þessum heimi og þú vinnur ekki í einhverju sem þú tekur ekki þátt í.“

Kreditkort
Kreditkort Reuters
Western Union
Western Union
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert