Gefin saman við Seljalandsfoss

Ann Rezbamyay og Christopher Peters við Seljalandsfoss í dag.
Ann Rezbamyay og Christopher Peters við Seljalandsfoss í dag. Ljósmynd/Jóna Sigþórsdóttir

Bandarískt par gekk í hjónaband við Seljalandsfoss í dag og var það sr. Önundur Björnsson, sóknarprestur í Breiðabólsstaðarsókn í Suðurprófastsdæmi, sem gaf parið saman. „Það er nóg að gera hjá mér frá þessum tíma og fram á haust. Það er örtröð allt sumarið og ég var í fyrra að gifta útlendinga þar til seint í október.“

Önundur segir að hjá þeim útlendingum sem hann hafi gefið saman utandyra sé vinsælast að láta athöfnina eiga sér stað við Seljalandsfoss, Skógarfoss eða í Þórsmörk. „Ísland virðist vera mjög vinsælt hjá fólki og því finnst landið ævintýralegt. Hótel Rangá er að markaðssetja giftingar hér á þessu svæði og Friðrik Pálsson virðist kunna markaðssetningu upp á 10.“

Um 40-50 manns komu með brúðhjónunum til landsins og verður veislan haldin á Hótel Rangá í kvöld. Önundur segir að logn hafi verið á Suðurlandi í dag. „Það var ekki hlýtt en alls ekki kalt og skúrir hér og þar en þegar athöfnin byrjaði kom þessi fína sólarglenna sem varði meðan á athöfninni stóð og virtist staðbundin á þessum bletti.“

Ljósmynd/Jóna Sigþórsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert