Segir eðlilegt að ræða samskiptin við ESB

Árni Þór Sigurðsson í ræðusal Alþingis og Össur Skarphéðinsson hlýðir …
Árni Þór Sigurðsson í ræðusal Alþingis og Össur Skarphéðinsson hlýðir á. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel að við þurfum að minnsta kosti að taka umræðu um samskipti okkar við Evrópusambandið,“ segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, aðspurður hvort hann telji að endurskoða þurfi ESB-aðildarferlið í ljósi kröfu ESB um meðalgöngu í Icesave málinu, og bætir við: „Það er alveg ljóst að það er ýmislegt sem að hefur komið upp á, þetta er eitt af þeim tilvikum, eða tilefnum, sem hafa komið upp á á undanförnu, makríldeilan er auðvitað annað.“

Árni Þór segir eðlilegt að menn ræði samskipti Íslands við Evrópusambandið og stöðuna á þeim ekki síst í ljósi þess að Íslendingar eiga í aðildarviðræðum við sambandið. „En hvaða niðurstöðu menn komast síðan að, að loknu mati á þeirri stöðu og sjónarmiðum sem kunn að vera uppi, það er of snemmt að segja til um það,“ segir Árni Þór og bætir við: „Ég tel óhjákvæmilegt að við förum í gegnum þá umræðu og það var rætt um það á fundi utanríkismálanefndar að við myndum gera það á þeim vettvangi og að sjálfsögðu í samtölum við utanríkisráðherra og ríkisstjórnina.“

Aðspurður út í nýleg ummæli Steingríms J. Sigfússonar, ráðherra og formanns VG, að krafa ESB um meðalgöngu í Icesave-málinu hafi óhjákvæmilega áhrif á andrúmsloftið í samskiptum við sambandið og hvort þau merki það að babb sé komið í bátinn í ríkisstjórnarsamstarfinu, segir Árni Þór: „Nei, ég get ekki séð annað en að það hljóti allir að vilja, og vera opnir fyrir því, að skoða með hvaða hætti við högum okkar samskiptum við Evrópusambandið á hverjum tíma.“ Hann segist ekki hafa trú á öðru en að allir flokkar geti verið samstíga með það, það kunni að vera misjafnt að hvaða niðurstöðu menn komist en menn geti ekki lokað á það að það sé full ástæða a.m.k. til þess að ræða hlutina.

Aðspurður hvort ekki sé grafalvarlegt mál að utanríkisráðherra hafi láðst í um það bil þrjár vikur að tjá þingheimi, sem og forsætisráðherra, um kröfu ESB um meðalgönguaðild í Icesave-málinu, segir Árni: „Auðvitað verður utanríkisráðherra að svara því sjálfur hvenær hann fékk upplýsingar um þetta mál en ég tel að menn eigi ekki að fullyrða um hluti sem að þeir vita ekki nákvæmlega fyrr en þeir hafa þá rannsakað þá til hlítar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert