Samráð var haft í málinu

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mbl.is/reuters

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra var gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils í dag. Þar sagði hann mál framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um að vilja fá aðild að málarekstri Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi vegna Icesave-málsins, ekki vera líklegt til að auka vinsældir Evrópusambandsins hér á landi. 

Össur benti jafnframt á að fólk hefði mátt búast við þessu máli en nýlega ákvaðu stjórnvöld að leggjast ekki gegn meðalgöngunni. „Ástæðan er sú að þetta styrkir málflutningsstöðu okkar í Icesave-málinu. Þetta gefur okkur kost á því að skila skriflegum vörnum gegn viðhorfum ESB áður en að munnlegi málflutningurinn byrjar,“ sagði Össur og bendir á að skriflegi þáttur málsins er mjög veigamikill og því var tekin sú ákvörðun að mótmæla ekki meðalgöngu Evrópusambandsins.

Þá segir Össur samráð við utanríkismálanefnd Alþingis hafa átt sér stað. „Á sömu klukkustund og ég hafði fengið greinargerð lögfræðiteymisins í hendur, og lokið við að lesa hana, þá sendi ég hana til ríkisstjórnar, á formann utanríkismálanefndar, hringdi í formann utanríkismálanefndar og lagði til að Tim Ward kæmi sem fyrst á fund nefndarinnar og við sammæltumst um fund um þetta mál,“ sagði Össur í Silfrinu í dag.

„Ég get svo tekið á mig að ég hefði kannski átt að gera mönnum viðvart 29. mars þegar að þetta kom á netið eða tveimur dögum fyrr þegar ráðuneytið fékk bréf um þetta,“ sagði Össur og bætti við að menn hefðu vel mátt vita að Evrópusambandið færi fram á aðkomu að málinu sökum þess hve umfangsmikið það er.

Engar áhyggjur af fylgistapi

Fylgi stjórnarflokkanna hefur hríðfallið að undanförnu og hefur stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn að sama skapi aukist. Innan Samfylkingar hefur verið rætt hvort skipta þurfi um formann flokksins fyrir næstu kosningar.

„Það var ekki skipt um formann þegar ég var með Samfylkinguna í 11% [...] en bara til þess að menn skilji hvað skoðanakönnunar gengi er fallvalt, þá leið ekki ár frá því að Samfylkingin datt niður í 11% og þangað til að hún vann kosningar með 32%,“ sagði Össur en að hans mati hefur formaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, staðið sig vel að undanförnu.

Vill virkja Þjórsá

Einnig var komið inn á virkjanamál í þætti Egils í dag. Þar þvertók Össur fyrir að engin áhersla væri á slík mál innan ríkisstjórnar. „Eru ekki framkvæmdir í Búðarhálsi, er ekki verið að fara í Sauðárveitu, er ekki verið að fara í Reykjanesvirkjun og blasir ekki við, og bókstaflega búið að segja, að það sé verið að fara í Kröflu. Það er verið að fara í Bjarnarflag, það er verið að fara í Þeistareyki. Hvað vilja menn meira?“

Þá sagðist Össur vera tilbúinn til þess að virkja Þjórsá að því gefnu að framkvæmdin skaði ekki dýralíf á svæðinu.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í Silfri Egils í dag.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í Silfri Egils í dag. Mynd/ Skjáskot af vef RÚV
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert