Betra að leita til Íslands en Rússlands

mbl.is/Brynjar Gauti

„Bretland þarf að grípa þetta tækifæri með báðum höndum. Við erum eins og sakir standa sjálfbær þegar kemur að orkuframleiðslu. En það verður ekki varanleg staða,“ segir í frétt á breska fréttavefnum This is Cornwall í dag. Þar er fjallað um hugmyndir um að lagður verði sæstrengur frá Íslandi til Bretlands og íslensk raforka notuð til þess að kyna bresk heimili.

Eins og mbl.is hefur greint frá kemur orkumálaráðherra Bretlands, Charles Hendry, til Íslands í næsta mánuði til þess að ræða þennan möguleika við íslenska ráðamenn og forystumenn í orkugeiranum hér á landi. Fram kemur í umfjölluninni að Íslendingar séu í skýjunum yfir þessum hugmyndum enda hafi þeir lent í bankahruni einungis fyrir fáeinum árum síðan. Þeim veiti því ekki af peningunum.

Þá segir að þegar Bretar geta ekki lengur séð um orkuþörf sína sjálfir gætu þeir neyðst til þess að leita til Rússa eins og fleiri Evrópuríki hafa gert og þar með yrðu bresk sjúkrahús, skólar, heimili og atvinnulíf háð geðþótta Vladimirs Pútín, forseta Rússlands. Það væri ekki hægt að eiga við hann nema maður sjálfur hefði sterkari stöðu og þetta fyrirkomulag væri ekki ávísun á sterka stöðu.

Ef Bretar yrðu að leita út fyrir landssteinana væri Ísland hins vegar mun betri kostur en Rússland. „Ólíkt Rússlandi hefur þessi litla þjóð ekki mörg spil á hendi. Þvert á móti horfir hún í örvæntingu sinni til þess að treysta tengsl sín við nágrannaríki sín í Evrópu. Þjóðin er í miðjun klíðum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ef hún getur tengt sig við ESB með því að útvega sambandinu græna orku þá mun hún gera það,“ segir í fréttinni.

Frétt This is Cornwall

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert