Fór hörðum orðum um tillöguna

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hér er verið að horfa algerlega framhjá lærdómum af hruninu. Málið er vanreifað og það er órökstutt og það er algerlega óútfært hvaða ávinningi hér á að ná og þvert á móti verið að ganga gegn grundvallarlærdómum af hruninu,“ sagði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, á Alþingi í dag í umræðum um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarráði Íslands. Sagðist hann efast um umboð ríkisstjórnarinnar til þess að leggja tillöguna fram þar sem hún gengi gegn stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna.

Hann gagnrýndi þingsályktunartillöguna harðlega einkum fyrir það að með henni væri ekki ætlunin að koma á samstilltri hagstjórn eins og meðal annars væri kveðið á um í stjórnarsáttmálanum þar sem komið væri á einn stað stjórn efnahagsmála og regluverki fjármálamarkaðanna til þess að tryggja fullnægjandi yfirsýn í þeim efnum. Hann sagði að fjármálaráðuneytið hefði aldrei getað gegnt því hlutverki og fjármagn hefði ekki fengist til þess til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

„Ég bað margoft um fjárveitingar til þess sem efnahags- og viðskiptaráðherra að menn gætu staðið við þau metnaðarfullu markmið um samstillta hagstjórn sem fólust í stjórnarsáttmálanum. Ég bað margsinnis um fjármagn til þess að geta mannað ráðuneytið þannig að við gætum sinnt því að búa til þá efnahagsáætlun sem okkur var falið að búa til. Þannig að það á alveg eftir að fjármagna efnahagsráðuneytið,“ sagði Árni Páll.

Hann spurði hvar kostnaðargreiningin væri á því að byggja upp þá getu í fjármálaráðuneytinu og sagði ómögulegt að taka afstöðu til málsins án þess að geta borið þá greiningu saman við kostnaðargreiningu á því að byggja hana upp í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Engin kostnaðargreining hefði farið fram í þessum efnum hvað fjármálaráðuneytið varðaði. Þá lægi heldur ekki fyrir greining á kostnaðinum af því að slíta efnahags- og viðskiptaráðuneytið í sundur með þeim hætti að regluverk fjármálamarkaðanna yrðu í einu ráðuneyti og efnahagsmálin í öðru.

„Þessar tillögur munu að óbreyttu taka gildi í haust, hálfu ári fyrir kosningar, og það er ómögulegt að róta svo í grundvallarforsendum hagstjórnar í landinu sem hér er gert ráð fyrir án nokkurrar undangenginnar greiningar,“ sagði Árni ennfremur og að hann teldi augljóst að bíða ætti með málið eftir niðurstöðum sérfræðinganefndar sem hann skipaði í ráðherratíð sinni til þess að fara yfir þessi mál í tilfelli efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og skila myndi af sér áliti næsta haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert