Vilja sameina sjóði sveitarfélaga

Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar stendur vel í samanburði við aðra sjóði.
Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar stendur vel í samanburði við aðra sjóði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnendur Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga (LSS) eru þessa dagana að kynna fyrir sveitarfélögunum tillögur um að sameina lífeyrissjóðina. Talið er að hægt að spara umtalsvert í rekstri sjóðanna með sameiningu.

Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga var stofnaður árið 1998. Þetta var gert þannig að allir nýir starfsmenn greiddu í sjóðinn en eldri starfsmenn gátu valið um hvort þeir greiddu í nýja sjóðinn eða gömlu sjóðina. Þar sem engir nýir sjóðsfélagar bætast í gömlu sjóðina munu þeir smátt og smátt líða undir lok þegar sjóðsfélagar komast á eftirlaun og falla frá. Sjóðirnir greiddu 2,8 milljarða í lífeyri í fyrra, en þessi upphæð fer upp í 5 milljarða árið 2031 en lækkar síðan nokkuð hratt.

Sveitarfélagasjóðirnir eru níu, en sex sjóðir hafa falið LSS að sjá um rekstur sinn. Þetta eru Reykjavík, Hafnarfjörður, Kópavogur, Húsavík, Akranes og Neskaupstaður. Lífeyrissjóðir starfsmanna Akureyrar, Reykjanesbæjar og Vestmannaeyja eru ekki inn í samstarfinu við LSS.

Sérstök stjórn er yfir öllum þessum sjóðum og kostnaður fylgir því að reka þá í sitt hvoru lagi. Jón G. Kristjánsson, framkvæmdastjóri LSS, segir áætlað að hægt sé að spara 347 milljónir króna með því að sameina þessa sex sjóði. Hann segir að verið sé að kynna þetta mál fyrir sveitarfélögunum þessa dagana. Hann segir að áhugi sé fyrir sameiningu, en það kunni að vera að sum sveitarfélög þurfi lengri tíma til að taka ákvörðun en önnur. Jón segir að sjóðirnir verði sameinaðir þó að ekki verði allir tilbúnir til að vera með strax í fyrstu umferð.

Jón segir að tæknilega sé ekkert mál að sameina sjóðina. Haldið sé mjög vel utan um skuldbindingar hvers launagreiðanda og það haldi áfram þó búið verði að sameina sjóðina. Hann segir að sameiningin muni eiga sér stað með þeim hætti að stofnuð verði ný deild innan LSS, en þar eru fyrir tvær deildir (A-deild og V-deild).

Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar stendur best

Lífeyrissjóðir sveitarfélaganna standa misvel að vígi. Samkvæmt tryggingafræðileg úttekt, miðað við árslok 2010, er munur á eignum og skuldbindingum neikvæður um 74-81% þar sem staðan er verst, en 20% þar sem staðan er best. Langbest er staðan hjá Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar og segir Jón að líkur á að það muni nokkru sinni reyna á bakábyrgð borgarinnar vegna sjóðsins hverfandi. Þeir peningar sem Reykjavíkurborg fékk fyrir söluna á hlut sínum í Landsvirkjun fóru inn í lífeyrissjóðinn, en hluturinn var seldur á 23 milljarða sem eru 28-29 milljarðar í dag.

Athyglisvert er að skoða útkomu sveitarfélagasjóðanna í skýrslu sem Landsamtök lífeyrissjóða létu vinna og kynnt var í vetur. Ef hrein raunávöxtun sjóðanna aftur í tímann er skoðuð kemur Lífeyrissjóður Reykjavíkurborgar út best allra. Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaganna er í fjórða sæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert