Gæti haft áhrif á aðildarviðræðurnar

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/Ómar

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti máls á því á Alþingi í morgun að þingmenn í sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins hefðu farið fram á það við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að viðræðum um inngöngu Íslands í sambandið yrðu stöðvaðar þar til Íslendingar hefðu samþykkt samkomulag um makrílveiðar.

Hún beindi þeirri fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og menntamálaráðherra, hvort hún væri sátt við það hvernig samskiptin við ESB að undanförnu hefðu verið, og vísaði þar bæði til makríldeilunnar og Icesave-málsins, og hvort hún hefði ekki áhyggjur af því að hagsmunum Íslendinga í makríldeilunni yrði fórnað vegna viðræðnanna um aðild að ESB.

Ragnheiður sagði ljóst að þingmenn sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins litu svo á að makríldeilan og ESB-umsóknin tengdust. „Þingmenn úr sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins fóru formlega á fund með Štefan Füle, stækkunarstjóra, þar sem þeir óskuðu eftir þessum viðræðuslitum þannig að það sé sagt hér,“ sagði hún og vísaði í fréttir fjölmiðla. „Og það gerir það náttúrulega að verkum að það er ekki með nokkrum hætti hægt að líta framhjá því að þessi tvö mál tengjast.“

Meta verði áhrif á viðræðurnar hverju sinni

Katrín svaraði því til að hún hefði verið þeirrar skoðunar að halda ætti makríldeilunni utan við viðræðurnar við ESB um aðild að sambandinu. Hins vegar yrðu Íslendingar að vera stöðugt á varðbergi vegna hagsmuna sinna í makríldeilunni. Þá sagðist Katrín telja að það væri nauðsynlegt að meta hverju sinni „hvort við teljum að slík mál hafi áhrif á aðildarviðræðurnar“.

Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að fá niðurstöðu í sjávarútvegskafla viðræðnanna við ESB og sagðist ekki telja útilokað að makríldeilan ætti eftir að koma þar við sögu þótt það lægi ekki fyrir. Þá lagði hún einnig áherslu á mikilvægi þess að Íslendingar væru fastir fyrir í viðræðum um hagsmunamál sín.

Mikilvægt að opna sjávarútvegskaflann

„Það er mín eindregna afstaða, og ég held ég deili henni með öllum... eða flestum háttvirtum þingmönnum, að við eigum að sjálfsögðu að vera föst fyrir þegar kemur að okkar hagsmunum og sjávarútvegsmálin eru auðvitað okkar... eitt stærsta hagsmunamál okkar í þessum viðræðum og ég lít svo á að við séum einmitt að verja okkar hagsmuni því staðan í makríldeilunni sýnir auðvitað að við erum föst fyrir í þeim samningaviðræðum og þar hafa verið tíu samningafundir og viðsemjendur okkar kvarta undan því að þeir komist ekkert áfram með Íslendinga,“ sagði Katrín og bætti við:

„Þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt að við verjum þessa hagsmuni og ég lít svo á að það sé mikilvægt að við gerum það í makríldeilunni og í aðildarviðræðunum þegar kemur að því að skoða sjávarútvegsmálin sem ég held líka að flestir háttvirtir þingmenn séu sammála um að séu mjög mikilvæg, hérna... séu á meðal okkar mikilvægustu hagsmunamála en eins og ég sagði hér áðan þá held ég að það sé líka mikilvægt að við komumst í þær viðræður og skoðum sviðið breitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert