Danir sitja hjá á makrílfundi

Makríll.
Makríll.

Makríldeila Íslendinga og Færeyinga við Evrópusambandið verður rædd á fundi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsríkjanna í næstu viku. Danir ætla að sitja hjá, að því er fram kemur á Evrópuvaktinni.

Munu ráðherrarnir taka afstöðu til tillögu framkvæmdastjórnar ESB um refsiaðgerðir gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar. Danir ætla að sitja hjá í ráðherraráðinu af tillitssemi við Færeyinga. Danski ráðherrann telur að tillagan verði samþykkt.

Framkvæmdastjórn ESB undirbýr jafnframt að setja skilyrði um lausn makríldeilunnar í tilkynningu til Íslendinga vegna aðildarviðræðna um sjávarútvegsmál, að því er fram kemur á vef Evrópuvaktarinnar.

Á vef vinstri vaktarinnar gegn ESB er fjallað um sama mál þar sem fram kemur að ESB hafi lengi heimtað að Íslendingar veiði lítið og helst ekki neitt af makríl sem fyllir hér flóa og firði stóran hluta árs og fitnar og dafnar með því að ryksuga allt kvikt sem hann kemst í tæri við.

„Í viðtali við Morgunblaðið 10. apríl sl. boðaði Steingrímur „hörku ef íslenskum sjávarútvegi verður refsað vegna makríldeilunnar“.

Katrín Jakobsdóttur sagði á Alþingi í gær (20/4): „Það er mín eindregna afstaða, og ég held ég deili henni með öllum... eða flestum háttvirtum þingmönnum, að við eigum að sjálfsögðu að vera föst fyrir þegar kemur að okkar hagsmunum og sjávarútvegsmálin eru auðvitað eitt stærsta hagsmunamál okkar...“ 

Ljóst ætti að vera miðað við fyrrnefndar yfirlýsingar forystumanna VG að aðildarviðræðunum verður sjálfhætt ef ESB gerir alvöru úr hótunum sínum um löndunar- og viðskiptabann á Ísland,“ segir á vinstrivaktinni gegn ESB.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert