Jarðhitasamvinna rædd á fundi

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands tók á móti Wen Jiabao, …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands tók á móti Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, á Bessastöðum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ræddi ítarlega um öfluga jarðhitasamvinnu Íslands og Kína á fund með forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, í gær.

Forseti Íslands fagnaði komu Wen Jiabao til Íslands en hann væri fyrsti forsætisráðherra Kína sem heimsækti landið. Forseti þakkaði Wen Jiabao fyrir eindreginn stuðning við samvinnu Íslands og Kína en forseti hefur á undanförnum árum átt þrjá fundi með forsætisráðherranum auk funda með forseta Kína, Hu Jintao. Samvinna landanna hefði vaxið mjög og væri dæmi um hvernig stórar þjóðir og smáar gætu unnið saman á farsælan hátt, segir á vef forsetaembættisins.

„Forseti ræddi síðan ítarlega þá öflugu jarðhitasamvinnu sem ákveðin hefði verið milli kínverska fyrirtækisins Sinopec, eins stærsta fyrirtækis heims, og fyrirtækisins Orka Energy um stórfelldar hitaveituframkvæmdir í Kína. Þar yrði byggt á íslenskri reynslu, tækni og þekkingu.

Forsætisráðherra Kína lýsti yfir eindregnum stuðningi við þessa samvinnu og vænti mikils af henni. Einnig áréttaði hann nauðsyn samvinnu á sviði rannsókna og tækni við nýtingu jarðhita. Forseti benti á að með hitaveitum í kínverskum borgum yrði hægt að draga til muna úr mengun. Auk þess nýttist jarðhiti til ræktunar matvæla, þróunar heilsulinda og þurrkunar matvæla eins og Íslendingar hefðu gert varðandi þorskhausa og annan fiskúrgang. Með þurrkun matvæla væri hægt að auka fæðuöryggi í Kína á komandi áratugum sem og margra annarra landa í veröldinni. Forsætisráðherra Kína taldi þessa hugmynd mjög athyglisverða,“ segir á vef forsetaembættisins.

Ólafur Ragnar ræddi ýmis svið tækniþekkingar sem þróuð hefðu verið á Íslandi og gætu nýst í Kína. Nefndi hann sem dæmi hina nýju verksmiðja Carbon Recycling í Svartsengi og orkustýringarkerfi fyrir skip sem Marorka hefur þróað.

„Þá vakti forseti athygli á áhuga Flugakademíunnar hjá Keili á að þjálfa kínverska flugmenn enda hin breytilegu veðurskilyrði á Íslandi hentug til slíkrar þjálfunar. Þá væri einnig ánægjulegt að kínverskir rafbílar, bæði einkabílar og hópferðabílar, gætu á komandi árum gert bæði umferð og ferðaþjónustu á Íslandi mun umhverfisvænni. Gaman yrði að aka hinum mikla fjölda kínverska ferðamanna, sem vonandi kæmi til Íslands á næstu árum, í rafmagnsrútum sem framleiddar væru í Kína.“

Á fundinum var rætt ítarlega um norðurslóðir. Forsætisráðherrann ítrekaði áhuga Kínverja á að öðlast áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og þakkaði íslenskum stjórnvöldum stuðning við þá ósk. Mikilvægt væri fyrir Kína að fylgjast með þróun mála á norðurslóðum. Stefnt væri að því að kínverski ísbrjóturinn Snædrekinn myndi senn sigla frá Kína yfir norðurskautið til Íslands.

Forseti minnti á rannsóknarþingið um „Þriðja pólinn“ sem haldið var á Íslandi á síðastliðnu ári en þar komu saman íslenskir og kínverskir jöklafræðingar og náttúruvísindamenn sem og vísindamenn frá öðrum löndum Himalajasvæðisins. Mikilvægt væri að stunda rannsóknir á öllum jöklasvæðum heims. Fjallaði forsætisráðherrann um mikilvægi jöklanna á Himalajasvæðinu fyrir vatnsbúskap Kínverja enda ættu stærstu ár landsins þar upptök sín.

Mannréttindi rædd á Bessastöðum

Mannréttindi voru rædd á fundi Ólafs Ragnars og Wen.

„Gat forseti þess að fyrir nokkrum árum hefði rektor kínversks háskóla nefnt á fundi á Bessastöðum hugsanlega samvinnu við íslenska fræðasamfélagið um rannsóknir á þróun mannréttinda. Hvatti forseti til þess að komið væri á samvinnu og samræðum milli íslenskra fræðimanna sem og félagssamtaka og áhugasamtaka við kínverska aðila enda mannréttindi grundvöllur æskilegrar þjóðfélagsþróunar.

Forsætisráðherra Kína lýsti því yfir að kínversk stjórnvöld væru reiðubúin að stuðla að slíkri samvinnu og samræðum við Íslendinga um mannréttindi. Sagan sýndi að mikilvægt væri að efnahagsleg þróun og þróun mannréttinda héldust í hendur. Forseti ítrekaði að í huga Íslendinga væru mannréttindi lykilatriði í samskiptum þjóða og þróun þeirra á Íslandi gæti á ýmsan hátt verið lærdómsrík í slíkri samræðu við kínverska aðila. Þegar skólinn var á Bessastöðum fyrir tæpum tveimur öldum hefðu Íslendingar verið án allra mannréttinda í nútímaskilningi en þjóðinni hefði tekist að þróa þau stig af stigi. Það væri reynsla sem við gjarnan vildum deila með Kína. Þakkaði forseti Wen Jiabao fyrir frumkvæði hans að umbótum í Kína og óskaði honum og samstarfsmönnum hans góðs gengis í þeim efnum,“ segir ennfremur á vef forseta Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert