„Hreinsað“ til við Shell

Tekið til hendinni við Shell í dag
Tekið til hendinni við Shell í dag mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ungliðar í Íslandsdeildar AI mættu á bensínstöð Shell við Vesturlandsveg síðdegis vopnaðir skúringafötum og hreinsiefnum. Ætlunin er að hreinsa til í kringum bensínstöðina en með þessu vilja ungliðar samtakanna vekja athygli á umhverfisspjöllum og mannréttindabrotum sem hlotist hafa af olíuvinnslu Shell á óseyrum Nígerfljóts í Nígeríu og krefja höfuðstöðvar Shell úrbóta.

Að sögn Bryndísar Bjarnadóttur, hjá Amnesty, tóku 15-20 manns þátt í þrifunum en um táknræna aðgerð var að ræða hjá Amnesty víðar um heim.

„Rétturinn til heilsusamlegs umhverfis eru mannréttindi og Amnesty International krefst þess að olíufyrirtækið Shell geri hreint fyrir sínum dyrum og viðurkenni áhrif olíumengunar á mannréttindi íbúa á óseyrum Nígerfljóts.

Samtökin krefjast þess jafnframt að olíumenguð svæði verði hreinsuð að fullu, samfélög hljóti bætur fyrir skaða af völdum olíumengunar, lögboðið og reglubundið mat á áhrifum olíuvinnslu á mannréttindi íbúa fari fram, og að þeir hafi fullan aðgang að upplýsingum um áhrifin á umhverfi sitt og mannréttindi.

Árið 2008 hlaust gífurleg mengun af tveimur stórum olíulekum í Bodó í Ogoni-héraði. Shell brást þeirri ábyrgðarskyldu sinni að stöðva lekann tafarlaust. Olíulekarnir voru ekki stöðvaðir fyrr en að mörgum vikum liðnum og rúmum þremur árum síðar hafði Shell ekki sinnt því að hreinsa olíumengunina á svæðinu. Olíulekarnir í Bodó eru aðeins eitt af þúsundum dæma um leka af völdum olíuvinnslu á svæðinu.

Íslandsdeild Amnesty International tekur þátt í alþjóðlegri herferð þar sem ákall verður sent til framkvæmdastjóra Shell í Hollandi, Peter Voser, og hann krafinn um að Shell gangist við ábyrgð sinni á olíumengun á óseyrum Nígerfljóts og greiði í upphafi 1 milljarð Bandaríkjadala í sérstakan sjóð sem nýttur verður til að hreinsa svæðið.

Einnig snúast kröfurnar um að Shell tryggi lögboðið og reglubundið mat á áhrifum olíuvinnslu á mannréttindi íbúa á óseyrum Nígerfljóts, sjái til þess að öll menguð svæði verði hreinsuð að fullu og greiði sanngjarnar skaðabætur þeim sem beðið hafa skaða af olíuvinnslu á svæðinu,“ segir í tilkynningu frá Amnesty International.

Ungliðar í Amnesty International tóku til hendinni við Shell á …
Ungliðar í Amnesty International tóku til hendinni við Shell á Vesturlandsvegi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert