Biðlar til Þjóðfylkingarinnar

Nicolas Sarkozy
Nicolas Sarkozy Reuters

Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, reynir að höfða til fylgis frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar, Marine Le Pen, sem fékk 18% fylgi í fyrri umferð forsetakosninganna í gær. Hann segir að svara verði áhyggjum þeirra. 

Sarkozy segir nauðsynlegt að virða skoðanir kjósenda og það skylda frambjóðenda en hann og Francois Hollande, frambjóðandi sósíalista, munu takast á í seinni umferð forsetakosninganna hinn 6. maí nk.

Le Pen fékk mun meira fylgi en faðir hennar, Jean-Marie, fékk fyrir Þjóðfylkinguna í fyrri umferðinni árið 2007 en þá fékk hann rúmlega 10% fylgi.

Sarkozy hvetur Hollande til þess að taka ósk hans um að þeir tveir mætist í kappræðum í þrígang fyrir seinni umferðina. „Þetta snýst um að takast á fyrir framan frönsku þjóðina. Verkefni gagnvart verkefnum, persóna á móti persónu, reynsla á móti reynslu. Franska þjóðin á rétt á því að vita, Hollande má ekki hlaupa í burtu,“ sagði Sarkozy við fréttamenn í morgun. Hollande sagði í gær að það væri nægjanlegt að þeir tveir myndu leiða saman hesta sína í kappræðum einu sinni fyrir seinni umferðina. „Hann verður að axla ábyrgð og ég mun axla mína ábyrgð,“ sagði Sarkozy í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert