Dómstólar ekki staðurinn fyrir pólitískar deilur

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, ræðir við blaðamamenn eftir að …
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, ræðir við blaðamamenn eftir að niðurstaða Landsdóms lá fyrir í gær. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég sagði að málsmeðferðin sem slík hefði verið fáránleg og út í hött,“ sagði Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við írska ríkisútvarpið RTÉ í dag, spurður að því hvers vegna hann teldi niðurstöðu landsdóms út í hött. „En lokaniðurstaðan var stórsigur fyrir mig þrátt fyrir að ég telji síðasta liðinn í ákærunni, sem ég var sakfelldur fyrir, vera fáránlegan. Sá umræddi liður hafði ekkert að gera með bankahrunið en hinir þrír, sem ég var sýknaður af, tengdust hins vegar hruninu efnislega með beinum hætti. Þannig að ég var fundinn sekur um minniháttar atriði sem er formsatriði og hafði ekkert að gera með bankahrunið.“

Því til viðbótar benti Geir á að þrátt fyrir að landsdómur talaði um að sá ákæruliður sem hann hefði verið sakfelldur fyrir fæli í sér alvarlega vanrækslu hefði dómurinn ekki talið það refsivert. „Þannig að niðurstaðan er í mótsögn við sjálfa sig að mínu mati og ég tel að þetta mál allt sé út í hött þegar komist er að lokaniðurstöðu eins og þessari. Þetta er 95% sigur ef horft er til þess að ákæruliðirnir voru upphaflega sex, tveimur var vísað frá og ég er ekki sekur um þrjá þeirra og þessi eini sem eftir er er eins og hann er. Þannig að ég get verið nokkuð ánægður með þetta.“

Leysa á pólitískar deilur í kosningum

Geir var þá spurður að því hvort hann teldi að landsdómsmálið hafi skilað einhverju og svaraði Geir því neitandi. „Ég tel að þetta hafi aðeins verið mikil sóun á fjármunum skattgreiðenda og það sorglega við það er að það var alfarið af pólitískum rótum runnið. Það að nota dómskerfið vegna pólitískra ágreiningsmála er ekki ásættanlegt. Slíkt á að gera í kosningum og pólitískt dægurþras á ekki að hafa áhrif á störf dómstóla. Þannig að ég tel ekki að þetta sé fyrirmynd að því hvernig standa eigi að málum annars staðar.“

Hann sagði að ef lögbrot væru framin ætti að fara með slík mál fyrir hefðbundna dómstóla. Ef um pólitískan ágreining væri að ræða eða vilji væri til þess að refsa einhverjum fyrir pólitíska stefnu hans ætti að gera það í kosningum. Þannig ættu skilin þar á milli að vera að hans mati. Geir var ennfremur spurður að því hvort hann væri þeirrar skoðunar að hann hefði engin mistök gert sem forsætisráðherra og svaraði hann því til að eftir á að hyggja í ljósi þeirra upplýsinga sem nú lægju fyrir hefði mátt gera ýmislegt öðruvísi. Engu að síður hefðu allir verið að gera sitt besta árið 2008 í aðdraganda hrunsins á grunni þeirra gagna sem þá hafi legið fyrir.

„Hins vegar er grundvallarmunur á Íslandi og Írlandi sem felst í því hvernig var brugðist við þegar efnahagskreppan brast á,“ sagði Geir og bætti við að enginn hefði sakað hann um að hafa ekki tekið rétt á bankahruninu þegar það skall á. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við því hafi skilað árangri og grundvallaratriði í því sambandi hafi verið sú ákvörðun að gangast ekki í ábyrgðir fyrir skuldbindingar íslensku bankanna erlendis líkt og stjórnvöld á Írlandi hafi gert. „Það voru að mínu áliti mikil mistök á Írlandi, við gerðum ekki þau mistök.“

Evran hefði gert stöðuna verri

Spurður að því hvort Írar gætu lært eitthvað af efnahagskrísunni á Íslandi sagði Geir að hann byggi ekki yfir nákvæmum upplýsingum um stöðu mála á Írlandi. Hvert ríki yrði auðvitað að grípa til þeirra aðgerða sem hentuðu aðstæðum þess. Ísland hafi hins vegar ekki verið í þeirri spennutreyju líkt og evrusvæðið fæli í sér sem hefði komið í veg fyrir að íslenska krónan hefði getað aðlagast aðstæðum og gert sveigjanleika hennar að engu. Geir sagðist ekki vilja fella neina dóma um Írland en hann teldi hins vegar nokkuð ljóst að Írar beri kostnaðinn af háu gengi evrunnar í gegnum aðra þætti efnahagslífsins, einkum vinnumarkaðinn.

„Ég tel að evran sé í miklum erfiðleikum, það er öllum ljóst þrátt fyrir að það vilji ekki allir viðurkenna það eða axla ábyrgð á afleiðingunum. Ég hef engan áhuga á því að Ísland gangi í Evrópusambandið og þar með evrusvæðið. Ég er þvert á móti andvígur inngöngu í sambandið og ég tel að það sé engin lausn á okkar vandamálum. Sveigjanleikinn sem við höfum notið vegna okkar eigin gjaldmiðils hefur verið mjög gagnlegur við þessar aðstæður,“ sagði Geir aðspurður hvort hann teldi að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna sem gjaldmiðil sinn.

Hér má hlusta á viðtalið við Geir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert